Hluti Akureyrar án rafmagns vegna mistaka
Rafmagnslaust var á hluta Akureyrarbæjar nú um eitt leytið, m.a. miðbænum og hluta Brekkunnar. Að sögn Norðurorku þá varði rafmagnsleysið í um 20-30 mínútur og er rafmagn nú komið aftur á bæinn.
Rafmagnsleysið var til komið vegna mistaka, en stjórnstöð Landsnets í Reykjavík tók út aðveitustöð nr. 1 við Þingvallastræti, er verið var að undirbúa framkvæmdir við aðveitustöðina.
Vegna misskilnings hjá Landsneti með aðgerðaráætlun Norðurorku, þá var stöðin tekin út kl. 13, í stað þess að það yrði gert í kvöld eins og áætlunin gerði ráð fyrir.