Konur voru í lok árs 2015 tæp 26 prósent stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá, sem er hækkun upp á 0,4 prósentustig frá árinu í fyrra. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hefur farið hækkandi frá árinu 2007. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hagstofunni.
Hins vegar stendur hlutfall kvenna í stjórnum stærri fyrirtækja landsins nánast í stað milli ára eftir mikla fjölgun undanfarin ár. Konur voru 32,8 prósent stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri en voru 33,2 prósent árið 2014.
Fyrir tæpum þremur árum voru sett í lög viðmið um að hlutfall hvors kyns skuli vera yfir 40 prósentum í stjórnum fyrirtækja sem hafa á sínum snærum 50 starfsmenn eða fleiri. Þess ber þó að geta að hlutur kvenna hefur vaxið talsvert síðasta áratuginn. Árið 2007 voru tæp 13 prósent stjórnarmanna í flokki stærri fyrirtækja konur og innan við 10 prósent fyrir árþúsundaskiptin.
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkaði lítillega frá fyrra ári eða um 0,3 prósentustig, úr 21,6 prósentum. /epe