Hlutafé í Moltu ehf. verður aukið um 40 milljónir króna

Samþykkt var á hluthafafundi í Moltu ehf. í vikunni heimild til stjórnar að auka hlutafé félagsins um 40 milljónir króna.  Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að taka þátt í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu fyrir allt að 25 milljónir króna. Bærinn á hlut í félaginu í gegnum félagið Flokkun Eyjafjörður ehf, en það félag er stærsti  hluthafi Moltu með um 68% hlut.  Hluthafar í Moltu eru 12 talsins.  

Eiður Guðmundsson framkvæmdastjóri Moltu segir líklegt að leitað verði til annarra hluthafa félagsins um aukið hlutafé í samræmi við eignaraðild. Hann segir aukningu á hlutafé nú til komna til að styrkja efnahag félagsins.  „Við höfum samið um að greiða upp erlent lán sem tekið var vegna tækjakaupa á sínum tíma, greiðslubyrgði þess er stíf og hefur verið okkur nokkuð erfið," segir Eiður. Molta hóf starfsemi um miðjan júní árið 2009 og hefur því verið í rekstri í um tvö ár.  Á þeim tíma hefur verið unnið úr 10.700 tonnum af úrgangi en innifalið í þeirri tölu eru stoðefni sem notuð eru við moltugerðina.  Lífrænn úrgangur, fiskúrgangur, sláturúrgangur og heimilissorp er ríflega helmingur framleiðslunnar.

Molta hefur undanfarið boðið bæjarbúum að nýta afurðina, en moltuhaugar eru við Gömlu gróðrarstöðina í Innbæ Akureyrar og hjá Sólskógum í Kjarnakógi.  Eiður segir að bæjarbúar hafi tekið vel við sér og nýtt sér moltuna, Akureyrarbær hafi notað hana í sína garða, hún hafi veirð notuð í Lystigarðinum og þá hafi skógræktendur einnig prófað hana.  Í framtíðinni segir Eiður að menn sjái fyrir sér að unnt verði að nota moltuna í landbúnaði.

Nýjast