Í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar er til staðar aðstaða sem stenst ekki kröfur tímans og þarfnast verulegrar fjárfestingar til að halda sínum sess. Efna þarf til alþjóðlegrar samkeppni um rekstur og markaðssetningu svæðisins sem heilsársafþreyingar og útivistarsvæðis. Þetta kemur fram í áfangaskýrslu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE) til bæjaryfirvalda á Akureyri er varðar uppbyggingu í Hlíðarfjalli.
AFE fékk heimild frá bæjaryfirvöldum til að vinna að úttekt á möguleikum á rekstri Hlíðarfjalls í október í fyrra. Vinna AFE miðaðist fyrst og fremst við að kanna möguleika og tækifæri sem gætu falist í að breyta rekstrarfyrirkomulagi í Hlíðarfjalli og möguleika á aðkomu annarra en bæjarfélagsins að rekstri, markaðssetningu og uppbyggingu svæðisins.
Ítarlega er fjallað um þetta mál í Vikudegi sem kom út í gær.
-Vikudagur, 1. september