Ingi Þór Ágústsson forstöðumaður á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri segir algjört úrræðaleysi vera í öldrunarmálum bæjarins og starfsfólk Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) sé í mikilli óvissu um sína framtíð og framtíð málaflokksins í bænum.
Þetta kemur fram í grein sem Ingi Þór ritaði í Vikudegi í síðustu viku.
Ingi Þór segir í samtali við Vikudag að húsnæðismálin á Hlíð séu ekki íbúum bjóðandi. Hann bendir á í greininni að Hlíð haldi hvorki vatni né vindi, starfsfólk þurfi að hlaupa um með fötur og handklæði þegar rignir og reyni að halda raka og kulda frá íbúum.
„Húsið sem ég stýri er gamalt og lekur,“ segir Ingi Þór. „Gluggarnir leka, það er raki í veggjum og komin mygla í glugga vegna viðhaldsleysis undanfarinna ára og það er vandamál sem hefur verið vitað um í töluverðan tíma. Þetta hefur þó ekkert með viðhaldsdeild bæjarins að gera, hún hefur staðið sig vel í þeim málum sem að deildinni snýr. Vandamálið er fyrst og fremst að það fjármagn sem er veitt til endurbóta og viðhalds á húsnæðinu er allt of lítið,“ segir Ingi Þór.
Segir vanta alla stefnu í öldrunarmálin
Formaður bæjarráðs Akureyrar, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, benti á það í frétt í Vikudegi fyrir tveimur vikum að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar geri ráð fyrir því að 350 milljónum verði ráðstafað til ÖA á árunum 2019 og 2020 og áhersla verði á endurbætur á Hlíð.
„En við lestur áætlunarinnar og framkvæmdaryfirlit Akureyrarbæjar fyrir árin 2018-2021 er ekki einu orði minnst á fyrirhugaðar endurbætur á Hlíð né neinni gerð af fyrirhuguðum byggingum á rýmum né endurbótum,“ segir Ingi Þór og bætir við: „Það er búið að gera tvær skýrslur á vegum Akureyrarbæjar um stöðu og framtíð í öldrunarmálum bæjarins. Og hver er niðurstaðan? Hún er engin. Það er engin stefna hjá bænum í þessum málaflokki. Bæjaryfirvöld hafa hvorki tjáð íbúum öldrunarheimilina né þeim hátt í 300 starfsmönnum sem starfa í öldrunarmálum í bænum hver stefnan er.“
Starfsfólk að kikna undan álagi
Ingi Þór segir starfsfólk ÖA sé að kikna undan álagi og langir biðlistar séu eftir plássi á Hlíð. „Það eru tugir einstaklinga sem eru að bíða eftir að komast inn, fólk fær mismunandi þjónustu heim til sín og staðan er sú að ég fæ daglega aðstandendur eldra fólks til mín sem er að þrotum komið og hefur engin hús að venda. Einnig er ég að missa starfsfólk í veikindafrí vegna álags. Úrræðaleysið er það algjört að fólk brotnar niður og veit ekki hvernig það á að takast á við þetta,“ segir Ingi Þór.