„Hlakka til norðlenskra jóla“

Páley Borgþórsdóttir.
Páley Borgþórsdóttir.

Páley Borgþórsdóttir er nýr lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Páley er 45 ára gömul, maður hennar er Akureyringurinn Arnsteinn Ingi Jóhannesson og þau eiga saman þrjú börn, Borgþór, Andreu Dögg og Emblu Sigrúnu. Páley er frá Vestmannaeyjum og var áður lögreglustjóri þar en hún er fædd og uppalin í Eyjum.

Hún segir þó að Akureyri hafi í raun alltaf verið hennar heimili númer tvö, enda stundaði hún nám sem unglingur í Menntaskólanum á Akureyri og Arnsteinn og hún hafi fylgst að í lífinu frá þeim tíma. Mikill og góður samgangur hafi ætíð verið á milli hennar og tengdafjölskyldunnar og heimsóknir á Norðurlandið því tíðar.

Mikið jólabarn

Páley er mikið jólabarn og við ræddum við hana um jólahátíðina, en fjölskyldan heldur sín eigin fyrstu norðlensku jól í ár. „Já, þetta verða okkar fyrstu jól í okkar eigin húsnæði á Akureyri. Það verður örugglega mjög notalegt en ég býst við meiri kulda og snjó en við erum alla jafna vön í Vestmannaeyjum,“ segir Páley sem hlakkar til að geta farið á skíði með fjölskyldunni um jólin en viðurkennir að hún sé ef til vill ekki sú liprasta í brekkunni. „Þá munum við fjölskyldan að sjálfsögðu heimsækja Jólahúsið reglulega í desember og finna þann sanna jólaanda sem þar er.“

Fjölskylduhefðir varðandi jólahátíðina eru nokkrar hjá fjölskyldunni. Til að mynda er alltaf aðventukaffi hjá tengdamömmu Páleyjar þann 1. desember, þar sem öll stórfjölskyldan mætir. „Við búumst reyndar við því að það verði með breyttu sniði í ár. Þá er alltaf jólagrautur í hádeginu á aðfangadag hjá okkur og við erum alltaf með lifandi tré. Jólaundirbúningurinn snýst um fjölskyldustundir og það er alltaf mikið um föndur á mínu heimili í desember. Auk þess á eldri dóttir mín afmæli á annan í jólum, þannig að þá reynum við að hafa smá afmælisveislu.“

Erfitt að verða vitni að þungum málum

Páley segir jólin alltaf sérstakan tíma hjá lögreglunni. Nóg sé af verkefnum eins og allan ársins hring og að það breytist ekki þó að tími jólanna gangi í garð. „Það er alltaf erfitt að verða vitni að þungum málum, líkt og ofbeldismálum eða málum sem varða börn með einhverjum hætti. Lögreglan vinnur markvisst í því að beita sér gegn ofbeldi og sérstök áhersla hefur verið á heimilisofbeldi undanfarin ár. Það er vágestur sem við verðum að hjálpast að við að uppræta,“ segir Páley og segist að sjálfsögðu óska þess að sem flestir eigi sem ánægjulegust jól í öruggu umhverfi með ástvinum. 

Kúrenukökur að hætti ömmu

Við báðum Páleyju að lokum um að deila með lesendum uppskrift að uppáhaldssmákökunum sínum. Uppskriftin er að kúrenukökum, sem er gömul uppskrift sem hefur lengi verið í fjölskyldunni og er frá föðurömmu Páleyjar. Hún segir það vera kókosmjölið sem geri þær ómótstæðilegar.

Kúrenukökur

375 g hveiti

375 g sykur

250 g smjör

250 g kókosmjöl, gróft

2 stk.   egg

125 g kúrenur (ef þær eru ekki til í búðum má nota rúsínur og saxa þær niður)

¼ tsk. hjartarsalt

Öllu hnoðað saman, rúllað í lengjur, kælt (fyrir þolinmóða), skorið í sneiðar og bakað í örfáar mínútur við 180°C eða þar til kúrenurnar verða gulbrúnar.

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikublaðsins sem unnið var af nemendum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri


Nýjast