HK nældi sér í tvö dýrmæt stig í kvöld í N1-deild karla í handknattleik eftir tveggja marka sigur gegn Akureyri fyrir norðan, 27-25. HK lagði grunninn að sigrinum með frábærum kafla undir lok fyrri hálfleiks og í upphafi þess síðari, en liðið náði mest sex marka forystu í leiknum. Akureyringar sýndu karakter með að koma til baka og jafna leikinn, en eftir æsilegar lokamínútur voru það HK-menn sem fögnuðu í Höllinni á Akureyri. HK fer með sigrinum upp í 17 stig og hefur þriggja stiga forystu á Akureyri sem hefur 14 stig.
Leikurinn var hníjafn í byrjun en Akureyringar fyrri til þess að skora. Heimamenn náðu fljótlega yfirhöndinni og komust í 6-3 og 7-4. Norðanmenn voru fastir fyrir í vörninni og spiluðu fínan sóknarleik en HK-ingar voru í basli. Forysta heimamanna var orðin fjögur mörk, 8-4, þegar fyrri hálfleikurinn var tæplega hálfnaður og HK tók leikhlé. Lítið var skorað næstu mínúturnar þar sem sóknarleikur beggja liða var slakur en varnarleikurinn að sama skapi ágætur. HK komst betur inn í leikinn þegar á leið. Ólafur Bjarki Ragnarsson komst í gírinn og skoraði þrjú mörk í röð fyrir HK sem minnkaði muninn í eitt mark, 10-9, þegar fimm mínútur voru til leikhlés. Gestirnir komust yfir, 11-10, í fyrsta skiptið í leiknum með frábærum kafla undir lok fyrri hálfleiks og höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 13-11.
HK byrjaði seinni hálfleikinn með látum og komst sex mörkum yfir í byrjun, 17-11, og héldu áfram þar sem frá var horfið í fyrri hálfleik. Akureyringar voru í tómu tjóni í sóknarleiknum og misstu boltann oft klaufalega frá sér. HK gekk á lagið og skoraði nokkur hraðaupphlaupsmörk í röð. Það var helst Bjarni Fritzson sem var með lífsmarki í sóknarleik Akureyringa framan af seinni hálfleik og reif upp stemmninguna hjá áhorfendum í Höllinni.
Norðanmönnum gekk erfiðlega að saxa á forskotið gegn sterki vörn HK-liðsins sem hélt Akureyringum í hæfilegri fjarlægð. Það dró til tíðinda á 47. mínútu leiksins er Daníel Berg Grétarsson hjá HK fékk beint rautt spjald, er hann virtist taka um höfuð Heimis Arnar Árnasonar fyrirliða Akureyrar þegar hann reyndi að brjótast í gegnum varnarmúr gestanna. Allt ætlaði um koll að keyra en Heimir var allt annað en sáttur.
Akureyringar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, 22-25, þegar átta mínútur voru til leiksloka. HK lenti í brottrekstra vandræðum og Sigurjón Friðbjörn Björnsson fékk að líta fjögurra mínútna brottvísun fyrir að stoppa hraðaaupphlaup heimamanna er hann togaði Heimi Örn niður. Meðbyrinn var með norðanmönnum þessar mínútur sem minnkuðu muninn í eitt mark, 24-25 og jöfnuðu í 25-25 þegar tvær mínúr voru eftir.
HK komst í 26-25 þegar rúmlega mínúta var eftir. Akureyri klúðraði næstu sókn og HK hefði getað klárað leikinn í þeirri næstu. Sveinbjörn Pétursson í marki norðanmanna varði hins vegar skot Villhelms Gauta Bergsveinssonar og Akureyringar héldu í sókn og freistuðu þess að jafna. Heimamenn misstu hins vegar boltann klaufalega frá sér og Bjarki Már Elísson skoraði 27 mark HK yfir endilangan völlinn, en Sveinbjörn markvörður var þá lagður af stað í sóknina.
Lokatölur, 27-25, og dýrmæt stig í hús hjá HK en eflaust svekkja Akureyringar sig yfir því að fá ekkert út úr leiknum.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 9 (3), Geir Guðmundsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Bergvin Gíslason 1, Oddur Gretarsson 2, Heimir Örn Árnason 2, Daníel Einarsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 19 (1).
Mörk HK: Bjarki Már Elísson 5 (1), Ólafur Bjarki Ragnarsson 5 (2), Tandri Már Konráðsson 5, Vilhelm Gauti Bergsveinsson 4, , Sigurjón Friðbjörn Björnsson 3, Daníel Berg Grétarsson 3 (1), Atli Ævar Ingólfsson 1, Bjarki Már Gunnarsson 1.
Varin skot: Björn Ingi Friðþjófsson 9.