Hjúkrunarráð FSA mótmælir boðuðum niðurskurði

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Hjúkrunarráð Sjúkrahússins á Akureyri, FSA, sem haldinn var í gær, mótmælir þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið og segir að lengra verði ekki gengið í hagræðingu. „Lengra verður ekki gengið í hagræðingu og samkvæmt niðurskurðartillögum sem kynntar voru í fyrradag verður dregið enn frekar úr þjónustu við sjúklinga á Norðurlandi. Til viðbótar má vænta að niðurskurðakröfur til annarra heilbrigðisstofnana á Norðurlandi auki enn álag á Sjúkrahúsið á Akureyri.”

“FSA er annað sérgreinasjúkrahús landsins og samkvæmt lögum varasjúkrahús Landspítala og því mikilvægt að hæft starfsfólk haldist í vinnu hér og tækjakostur og þekking sé áfram til staðar. Fyrir nokkru svaraði velferðarráðherra, fyrirspurn á Alþingi, um þróun stöðugilda lækna og hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum árin 2007 - 2011. Í fjölmiðlum var því slegið upp að stöðugildum hjúkrunarfræðinga hefði fjölgað um rúmt 1% á landinu.

Á FSA, hefur stöðugildum hins vegar fækkað um 7,8 frá því um efnahagshrun. Þessar upplýsingar eiga því auðsjáanlega ekki við FSA. Vegna niðurskurðarkröfu fyrir næsta ár er fyrirsjáanlegt að enn fleiri hjúkrunarfræðingar missi vinnu sína á FSA og aðrir munu þurfa að minnka við sig vinnu til að komast hjá uppsögnum starfsfélaga. Óhjákvæmilegt er að þjónusta við sjúklinga minnki, aukið álag verður á þá fáu starfsmenn sem eftir eru sem ógnar þar með öryggi sjúklinga.

Engar líkur eru á að færri landsmenn veikist á næsta ári og minnkuð starfsemi á FSA eykur líkur á sjúkraflugi milli Norðurlands og Landsspítala, eykur þar með álag á Landsspítala sem síður en svo leiðir til sparnaðar í útgjöldum ríkisins. Því skorar aðalfundur hjúkrunarráðs FSA á velferðarráðherra og ríkisstjórnina að endurskoða afstöðu sína í niðurskurðarkröfu á FSA og gefa út framtíðarstefnu í heilbrigðismálum landsbyggðarinnar," segir í ályktun fundarins. Þetta kemur fram á mbl.is.

 

Nýjast