Um liðakeppni er að ræða og eru tveir hjólreiðamenn í hverju liði, sem skiptast á að hjóla leiðina sem er um 430 km, auk ökumanns sem fylgir hverju liði eftir á leiðinni. Tíu lið eru skráð til keppni. Liðsmenn ráða því hvort þeir hjóla saman eða skiptast á um að hjóla á leiðinni. Keppnin fer fram á hefðbundnum götuhjólum og hvert lið má hafa fjögur hjól meðferðis auk varahluta. Liðin verða ræst af stað að morgni 8. júlí og er áætlað að öll lið verði komin fyrir miðnætti þann dag til Akureyrar.
Keppnisreglur:
Fylgdarbíl er ekið fyrir aftan sitt lið eða hjólahópinn. Þegar hjólahópurinn slitnar má fylgdarbíll ekki fara á milli hjólreiðamanna fyrr en bilið er orðið að lágmarki 100 m (tvær stikur). Þegar liðsmenn hafa ákveðið skiptingu má fylgdarbíll fara fram fyrir sitt lið og hann verður að keyra ákveðið fram úr hjólreiðamanni/-mönnum á stað þar sem ekki skapast hætta vegna annarrar umferðar. Fylgdarbíl skal ekið á 60-90 km hraða í a.m.k. 2 mínútur eftir að hann er farinn fram úr sínu liði (2 km eftir að farið er fram úr) og stöðva svo á þeim stað að ekki skapist hætta af annarri umferð þegar liðsfélaginn gerir sitt hjól tilbúið fyrir skiptingu.
Skipting fer þannig fram að sá sem er að ljúka við sinn hjólreiðalegg verður að láta framdekk sitt ná fram fyrir framdekk þess sem er að taka við. Sá sem er að taka við að hjóla má ekki trufla aðra hjólreiðamenn sem gætu farið fram úr honum meðan hann bíður eftir liðsfélaga sínum. Sá sem er að ljúka við sinn legg má ekki trufla aðra hjólreiðamenn sem koma á eftir honum.
Einungis hefðbundin götuhjól án aukabúnaðar til að minnka loftmótstöðu eru leyfileg. Liggistýri eru óleyfileg. Leiðin, sem verður hjóluð, liggur um þjóðveg 1 um Hvalfjörð, samtals 430 km. Leiðin er ekki lokuð annarri umferð á meðan og verða því bæði keppendur og ökumenn að sýna fyllstu varúð.
Dagskrá og tímaplan miðvikudagsins 8. júlí:
07:00 Lagt af stað frá Olís í Mofellsbæ (Langatanga 1)
10:00 - 10:30 Borgarnes - 100 km
11:00 - 11:30 Bifröst - 132 km
12:45 - 13:30 Brú/Staðarskáli - 190 km
13:30 - 14:30 Laugarbakki - 216 km
15:15 - 16:15 Blönduós - 270 km
16:45 - 18:00 Varmahlíð - 321 km
19:30 - 21:30 Akureyri - 415 km (Keppninni lýkur við Olís við Tryggvabraut).
Hér eru ca. tímamörkin miðað við 29 - 33 km/klst. meðalhraða.