Hjartavernd Norðurlands barst höfðingleg gjöf

Hjartavernd Norðurlands, barst í haust höfðingleg gjöf, þegar dánarbúi Margrétar Halldórsdóttur var skipt. Hún var gift Tryggva Jónssyni en þau hjón voru barnlaus og arfleiddi Margrét Hjartavernd Norðurlands að andvirði íbúðar sinnar. Heimili þeirra hjóna var að Víðilundi 20. Margrét vildi með þessum rausnarskap heiðra minningu eiginmanns síns, en hann lést fyrir nokkrum árum.  

Þau hjón áttu langa samleið og farsæla starfsævi. Tryggvi  var flinkur vélamaður, rak verkstæði í Lundargötunni  og fór vítt um sveitir til að gera við landbúnaðarvélar. Margrét vann á saumastofu Heklu og síðar hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Félagið hyggst nýta gjöfina til kaupa á tækjum og til að styrkja starfsemi félagsins. Markmið Hjartaverndar Norðurlands er að hlúa að fovarnarstarfi og lækningum varðandi hjarta-og æðasjúkdóma á félagssvæðinu. Ólafur Sigurðsson læknir var lengst af formaður  félagsins sem hét Hjarta- og æðaverndarfélag Akureyrar og nágrennis. Nafnið Hjartavernd Norðurlands hefur verið tekið upp. Núverandi formaður er Snæbjörn Þórðarson.

Félagið hefur oft stutt tækjakaup  til lækninga á hjarta- og æðasjúkdómum, lagt fé til stofnunar HL stöðvarinnar að Bjargi, í sundlaugina á Kristnesi og til forvarnastarfa. Aðalfundur félagsins verður haldinn í Stássinu/Greifanum kl. 20.00 á morgun þriðjudaginn 20 október.

Nýjast