Hjartavernd gefur Heilsugæslustöðinni á Akureyri hjartastuðtæki
Hjartavernd Norðurlands hefur gefið Heilsugæslustöðinni á Akureyri veglega gjöf, fullkomið hjartastuðtæki með betri mögu leika á hraðri greiningu og meðferð sjúklinga.
Tækið gefur einnig möguleika til meiri inngripa en áður var hægt, betra er að fylgjast með skyndilega veikum einstaklingum og auðveldara er að fylgjast með árangri hjartahnoðs í endurlífgun. Sömu tæki eru nú þegar notuð í sjúkrabílum á Akureyri sem eykur enn frekar samræmi í meðferð og öryggi sjúklinga.
„Við á Heilsugæslustöðinni á Akureyri erum afar þakklát fyrir þann myndarlega stuðning sem félagið hefur sýnt stöðinni gegnum árin. Starf, stuðningur og rannsóknir Hjartaverndar í gegnum árin hafa verið ómetanleg fyrir vitund okkar og þekkingu á eðli hjarta- og æðasjúkdóma, en mikið hefur áunnist í forvörnum og lækningum á þeim í gegnum tíðina. Þekking og reynsla hefur aukist og viðbrögð við hjartasjúkdómum skilað ómældum ávinningi til þjóðarinnar. Stuðningur sem þessi er afar mikilvægur fyrir starfsemi stöðvarinnar og gerir okkur betur kleift að veita bestu mögulegu þjónustu. Við þökkum Hjartavernd kærlega fyrir,“ segir Þórdís Rósa Sigurðardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur á Heilsugæslustöðinni á Akureyri.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hjartavernd kemur færandi hendi, áður hefur félagið meðal annars gefið fullkomna blóðþrýstingsmæla á allar lækna og hjúkrunarstofur Heilsugæslunnar á Akureyri. Félagið hefur frá upphafi stutt tækjakaup fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri, heilsugæslustöðvar sem og byggingu sundlaugar á Kristnesi.
Aðalmarkmið Hjartaverndar er að efla forvarnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Liður í því er að taka þátt í Go-Red deginum sem haldinn er í febrúar ár hvert og leggur áherslu á forvarnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum hjá konum. -epe.
-Vikudagur, 14. júní