Níels Erlingsson skrifar
Í tæp þrátíu ár hefur Hjálpræðisherinn á Akureyri staðið fyrir fata- og nytjamarkaði, fyrst kallað Flóamarkaður. Fyrstu árin voru aðstæður ekki góðar, salir starfseminnar voru tvo daga í mánuði lagðir undir markaðinn, sem útheimti mikla vinnu bæði við upphaf sölunnar og er þurfti að ganga frá eftir söludaga. En félagar og vinir Hersins voru ætíð tilbúnir að aðstoða og leggja á sig vinnu við þessa nýbreytni til fjáröflunar fyrir starfið. Ekki var það mikið fyrstu árin sem þessi tilraun til fjáröflunar gaf af sér. Starf þetta sýndi sig fljótt koma mörgum að góðum notum, viðskiptavinum fjölgaði ört og voru margir þakklátir fyrir að geta verslað ódýran fatnað. Seinna bötnuðu söluaðstæður, húsnæðið stækkaði og fleiri vöruflokkar bárust, svo sem húsgögn, ýmis tæki, bækur glervörur og annað, auk fatnaðar á börn og fullorðna. Þessi starfsemi varð vinsæl, að selja notaðan varning á verði sem var aðeins brot af verði sömu vöru í verslun.
Slíka starfsemi hefði ekki verið hægt að stunda ef ekki allt þetta góða fólk sem vinnur þessi störf ólaunað, hefði ekki verið fúst til vinnu. Þó svo að það liggi alveg ljóst fyrir að verðmætum er haldið til haga, hafa bæjaryfirvöld á Akureyri ekki séð ástæðu til að sýna þessu mikilvæga starfi til verðmætasköpunar athygli með fjárframlögum. Annað starf sem Hjálpræðisherinn á Akureyri hefur unnið frá upphafi hér á Akureyri í rúm eitthundrað ár, er að safna fé fyrir jól handa barnafjölskyldum og sjúklingum og veita þeim smá glaðning fyrir jól. Þetta hefur verið gert með því að halda úti svokölluðum Jólapotti í desember. Svo höfum við verið svo lánsöm í nokkur ár að hafa fengið fyrir jól fjárframlög frá klúbbum á Akureyri og erum við þeim þakklát fyrir. Þetta hefur gert okkur kleift að gleðja nokkra einstaklinga fyrir jól.
Nú er Hjálpræðisherinn á Akureyri búinn að koma sér upp aðstöðu í björtu og rúmgóðu húsnæði fyrir reksturinn Fata- og nytjamarkaður Hertex. Sem fyrr er starfsemin byggð á vinnuframlagi félaga og vina sem starfa ólaunað. Einnig erum við svo heppin að stór hópur fólks færir okkur fatnað og nytjavöru og þar sem við erum komin með sendibíl, hringir fólk og býður okkur að sækja húsgögn og stærri tæki heim til sín. Stefna og markmið Hjálpræðishersins með þessari markaðssölu er að hluti ágóðans renni aðallega í hjálparstarf í umdæmi Hjálpræðishersins á Akureyri. Hjálpin miðast við að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur sem lenda í óhöppum, veikindum, eða öðru ófyrirséðu. Það er trú okkar og von að starfsemin og samstarfið við allt þetta góða fólk, viðskiptavini og gefendur markaðsvaranna, sýni hversu gott og nytsamlegt það er að standa saman um hluti sem horfa til betri vegar fyrir heildina.
Guð blessi ykkur.
Höfundur er stjórnarformaður Hertex.