Tillaga uppstillingarnefndar um framboðslista Framsóknar & félagshyggju í Norðurþingi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar 14. maí var borinn upp til atkvæða á fjölmennum félagsfundi hjá Framsóknarfélagi Þingeyinga í dag, laugardaginn 12. mars. Tillagan var samþykkt samhljóða. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var á fjölmiðla.
„Oddviti listans er Hjálmar Bogi Hafliðason, deildarstjóri og kennari á Húsavík, sem hefur setið níu ár í sveitarstjórn auk þess að vera varafulltrúi um tíma og sinnt þingstörfum. Soffía Gísladóttir skipar annað sætið og er búsett í Lindarbrekku í Kelduhverfi. Hún kemur ný inn á listann en hún þekkir svæðið vel sem forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi Eystra og Austurlandi og hefur einnig sinnt þingstörfum. Eiður Pétursson, vélstjóri á Húsavík og starfar fyrir Landsvirkjun, skipar þriðja sætið. Hann er varafulltrúi framboðsins í dag og hefur setið í fjölskylduráði sveitarfélagsins á kjörtímabilinu. Þar á eftir koma Bylgja Steingrímsdóttir, Eysteinn Heiðar Kristjánsson og Hanna Jóna Stefánsdóttir,“ segir í tilkynningunni.