Hiti í mönnum á íbúafundi um tillögu að deiliskipulagi Dalsbrautar

Töluverður hiti var í fundarmönnum á íbúafundi um tillögu að deiliskipulagi Dalsbrautar, sem haldinn var í Lundarskóla í gærkvöld. Húsfyllir var í sal Lundarskóla en þegar nokkuð var liðið á fundinn gengu fjölmargir óánægðir gestir af fundi. Langflestir þeirra sem mættu á fundinn eru á móti lagningu Dalsbrautar en íbúar t.d. í Naustahverfi telja nauðsynlegt að ráðist verði í framkvæmdina.  

Reyndar hefur verið ákveðið að leggja Dalsbraut, milli Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar og áréttaði Oddur Helgi Halldórsson formaður bæjarráðs og einn frummælanda, það á fundinum. Hann sagði að til fundarins hefði verið boðað til að kynna þá vinnu sem er í gangi við deiliskipulag Dalsbrautar og svæðisins við götuna. Skipulagið fer svo í auglýsingu og þá gefst bæjarbúum kostur á að gera sínar athugasemdir með formlegum hætti.  Oddur sagði að áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina væri um 200 milljónir króna. Hann sagði að þeir fjármunir væru ekki teknir af rekstrarfé bæjarins heldur af framkvæmdafé og væru um ræða 10% af framkvæmdafénu.

Á fundinum var m.a. skorað á L-listann að draga tillöguna til baka, þar sem engin þörf væri á lagningu Dalsbrautar, að mati nokkurra þeirra sem tóku til máls. Í tillögu að deiliskipulagi Dalsbrautar er gert ráð fyrir að hámarkshraði á kaflanum frá Miðhúsabraut að Skógarlundi verði 50 km en á kaflanum frá Skógarlundi að Þingvallastræti verði hámarkshraði 30 km. Þá verða tvö umferðarljós á kaflanum milli Skógarlundar og Þingvallastrætis og aki vegfarendur yfir 30 km hraða sýna ljósin rautt þar til ökumaður hefur hægt ferð sína niður fyrir 30 km. Gangangi vegfarendur ýta á takkann á ljósunum til að fá grænt ljós yfir götuna. Nánar verður fjallað um íbúafundinn í Vikudegi næsta fimmtudag.

Nýjast