Íþróttafélagið Völsungur á Húsavík átti 89 ára afmæli s.l. þriðjudag 12. apríl. Undirritaður hefur á undanförnum árum skrifað um og myndað fjölda Völsunga á öllum aldri sem hafa verið að keppa í hinum ýmsu greinum íþrótta. En það var ekki fyrr en á dögunum sem mér tókst að mynda sérstaklega hinn eina sanna Völsungs, sem er Völsungur að eðli og upplagi – og getur ekki annað!
Sá er með aðsetur í hinu magnaða Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit uppi og heldur þar afar kyrru fyrir, miðað við Völsunga yfirhöfuð, enda fugl og það uppstoppaður. Sem sé ránfuglinn Völsungur, sem nefnist á hinu alþjóðlega fuglamáli Latínu, Elanus Caeruleus (kærulaus??) og á ensku Black winged kite. Fuglinn er kirfilega merktur þessum þremur nöfnum og raunar fleirum, eins og allir aðrir fuglar á þessu glæsilega safni.
Einn gesta sem var að skoða Völsunginn, spurði hvort hann væri nokkuð fótbrotinn, því staða vinstri fótar virtist nokkuð óeðlileg. Viðstaddir voru sammála um að ef svo væri, þá væri það örugglega dæmi um enn einn Völsunginn sem hefði orði fyrir barðinu á ruddalegum leikmanni Þórs! JS