„Hér er allt nýtt, jafnvel þó það sé ónýtt”

Aðalstræti.
Aðalstræti.

Jólunum fylgja mandarínur- já mandarínur í kassavís! Eins hrifin og við erum mörg hver af mandarínunum erum við ekki alveg eins hrifin af kössunum sem þeim fylgja. Aðallega vegna þess að við vitum ekkert hvað við eigum að gera við þá. Það er þó ekki tilfellið í smiðjunni á Hlíð, því þar hefur Gísli Brynjólfsson, málarameistari, fundið kössunum nýtt hlutverk. Hann notar kassana sem byggingarefni og smíðar úr þeim eftirlíkingar af kirkjum og öðrum húsum.

Listaverkin mætta mér strax fyrir utan hjúkrunar- og dvalarheimilið Hlíð og höfðu raunar gert það alla bílferðina á hinum ýmsu stöðum í bænum. Ég geng ekki hratt um gangana því reglulega verða á vegi mínum listmunir og skraut sem vert er að staldra við og skoða. Þegar að ég loksins kemst að smiðjunni áttaði ég mig á því að, hingað til, hafði ég aðeins séð brot af afrakstri vinnunnar. Hillurnar hreinlega svignuðu undan þunga allra listaverkanna sem þarna var að finna. Andrúmsloftið var ótrúlegt og engu líkara en búið væri að sameina minjasafn og listagallerí á sama stað. Þarna mættust gamlir og nýjir tímar, ævaforn verkfæri við hlið nýtískulegra listmuna.

Innst í smiðjunni finn ég svo loks skaparana sjálfa sem standa að baki allri listasmíðinni sem fyrir augum ber. Þetta eru þeir Gísli Brynjólfsson málarameistari og Jóhann Ingimarsson oft kallaður Nói og kenndur við Örkina og Valbjörk. Þeir félgar hafa svo sannarlega gengið gegnum margt um ævina en venju samkvæmt byrjum við á smá ættfræði. Þannig er það að “amma mín sem bjó á Eskifirði og amma Nóa sem bjó norður á Langanesi voru systur og við Nói því náskyldir,” segir Gísli en þeir frændur eru ekki vanir að láta sér leiðast og fljótir að grípa í allskyns sagna úr fortíðinni. Vinnan sem þarna fer fram er þeim ákaflega mikilvæg en “milli þess sem við vinnum tökum við okkur góðan tíma í að hugsa og ræða málin, því það er ekkert vit í verkinu nema hugsun liggi þar að baki,” segir Gísli. Þeir félagar sefna á að halda áfram starfi sínu í smiðjunni svo lengi sem heilsan leyfir. “Hér dundum við til að halda í okkur lífinu,” eins og Nói orðar það. “Maður er einfaldlega búinn að vera ef maður hættir,” bætir Gísli síðan við.

Húsgagnamálarinn Gísli

Gísli Brynjólfsson fæddist á Eskifirði en fluttist fjögurra ára gamall til Vestmannaeyja þar sem hann óx úr grasi. Hann lærði að mála hjá manni sem hafði farið til Kaupmannahafnar til að læra húsgagnamálun árið 1899. Smám saman hættu menn þó að smíða undir húsgagnamálun og má því segja að Gísli sé meðal þeirra síðustu hér á landi sem hafi stundað þá iðju af einhverri alvöru. Það lét hann þó ekki aftra sér, ef lítið var að gera í málningunni gekk hann í hlutverk smiðs og vann þá við skipasmíði hjá föður sínum eða við húsasmíði. Gísli kann því ýmislegt fyrir sér og hefur í gegnum tíðina lært að bjarga sér með það hráefni sem til er.

Allur efniviður nýttur

“Það er enn ríkt í manni að nýta allt, þannig var maður alinn upp. Mikið vatnsleysi var stundum í Vestmannaeyjum og ég á enn þann dag í dag erfitt með að sjá vatn renna úr krana án þess að skrúfa þar fyrir,” segir Gísli og bætir svo við: „Maður fleygir ekki neinu ef hægt er að laga það. Ég fékk eina borvél sem var brotin á tveimur stöðum þegar að hún kom, en ég saumaði hana saman.” Gísli er einkar lunkinn við það að sjá notagildi í hráefni sem aðrir telja rusl. Á vinnuborðinu hans verða mandarínukassar að stórglæsilegum kirkjum og húsum. Hann nýtir þó ekki aðeins kassan sjálfan heldur plastið og allt sem kössunum fylgir. Ef klæða á húsin að utan með timbri grípur hann í ónýta rúllugardínu sem hann geymir við hliðina á vinnuborðinu. “Hér er allt nýtt, jafnvel þó það sé ónýtt,” segir Gísli og glottir.

Mandarínukassinn í nýjan búning

En hvernig upphófst þetta alltsaman? „Mér var búið að detta í hug fyrir þó nokkuð löngu síðan að gera líkan af Landakirkju í Vestmannaeyjum. Ég fermdist í þessari kirkju. Ég lenti líka í því í tvígang að mála hana bæði utan og innan svo að ég þekkti hana mjög vel. Ég sá í hendi mér að hlutfallslega þá var mandarínukassinn alveg passleg stærð á kirkjunni, þannig að ég gat notað viðinn eins og hann kom fyrir,” segir Gísli sem upphaflega hafði séð kirkjurnar sem myndarlegasta jólaskraut með ljósi inni í þeim. Við gerð húsanna vinnur hann með myndir sem teknar eru frá ýmsum sjónarhornum, en stundum fær hann líka teikningar. Öll húsin miðast þó við að hægt sé að gera þau úr mandarínukössunum eða öðrum stærri ávaxtakössum ef þau eiga að vera stærri.

Allt í allt reiknar Gísli með að húsin og krikjurnar séu í dag rétt rúmlega 30 talsins og enn bætist við. Hann er afar þakklátur fyrir þá aðstöðu sem hann hefur haft í smiðjunni á Hlíð og segir hana hafa spilað stóran þátt í að hann hafi hafist handa við smíði húsanna. “Þó ég hafi ágætis aðstöðu heima í bílskúr þá fékk ég mig helst aldrei til þess að fara þangað. Hérna get ég alltaf sest niður og unnið,” segir Gísli sáttur með sitt.

Húsgagnasmiður með hugsjón

Áður en Gísli kom í smiðjunna hafði Nói verið þar að störfum allt frá því að hún var sett á laggirnar. Nói er Akureyringum vel kunnur, enda áorkað margt um ævina. Hann lærði ungur húsgagnasmíði hér í bæ en hélt síðan út til Kaupmannahafnar í nám við húsgagnahönnun og innanhússarkitektúr. Þegar að heim var komið var þó litla vinnu að fá. Auglýsing frá Ísberg sýslumanni á Blöndósi um trésmíðavélar til sölu varð til þess að Nói setti á laggirnar sitt eigið fyrirtæki, sem fékk nafnið Valbjörk. Þrátt fyrir að hann hefði engan pening átt fékk hann vélarnar afhentar gegn munnlegu loforði um að borga þegar að hann gæti, sem hann að sjálfsögðu gerði.

Benjamín Jónsson og Torfi Leósson gengu til liðs við fyrirtækið og saman smíðuðu þeir borðstofusett sem sló rækilega í gegn. Pöntunum ringdi í kjölfarið inn svo að ráða þurfti inn lærlinga til þess að anna eftirspurn. Gefum Nóa orðið: “Það má í raun og veru segja að framleiðslan okkar hafi gjörbylt húsgagnaframleiðslu á Íslandi. Við komum með alveg nýjar áherslur og línur. Nýtískulegar og allt öðruvisi en venja var hér. Yfirleitt var húsgangaiðnaðurinn þannig, ef iðnað skildi kalla, að smíðað var eitt og eitt stykki eftir pöntunum. Við fjöldaframleiddum. Smíðuðum kannski tíu borðstofusett í einu.”

Í Útflutning

Nói og félagar í Valbjörk opnuðu fyrstu húsgagnaverslun bæjarins sem varð til þess að auka enn á eftirspurnina. Uppgangurinn var slíkur að óhjákvæmilegt var að stækka við sig. Húsnæði fengu þeir hjá KEA niðri á Oddeyri og Sigvaldi Thordarson arkitekt hannaði nýtt verksmiðjuhús í Glerárgötu 28. Framleiðslan jókst og þegar mest var seldu þeir um 85% af öllum húsgögnunum í verslanir í Reykjavík. Úr varð að þeir opnuðu sjálfir verslun í höfuðborginni en þá hættu aðrar verslanir í bænum að stunda við þá viðskipti og þá fór að halla undan fæti.

Í tilraun til að bjarga fyrirtækinu sendi Nói sýnishorn til Bandaríkjanna. Þar leist mönnum vel á og lögðu inn pöntun fyrir 120 þúsund stykkjum af einum og sama þrífætta kollinum. Bandaríkjamennirnir höfðu áhuga á frekari viðskiptum en vegna þess hversu erfiðlega gekk að fá fjármagn frá bönkunum fjöruðu þau viðskipti út. Á endanum seldi Nói fyrirtækið til samstarfsmanna sinna í fyrirtækinu gegn vöruúttektum því þeir áttu engan pening. Fjármagnið fyrir söluna á vörunum sem hann fékk, gat Nói notað til þess að stofna Örkina hans Nóa. Þar flutti hann nær eingöngu inn húsgögn frá Ítalíu og Þýskalandi.

Gera það sem þá langar til

“Við erum hér bara að dunda og gera það sem okkur langar til. Það verður svo bara að koma í ljós hvort einhver hefur áhuga á því,” segir Gísli en viðurkennir að það sé nú gott að geta öðru hverju komið einhverju af smíðinni út. Aðspurður að því hvort það sé ekki kjörin lausn að koma þessu út í jólapökkunum svarar Gísli að hann sé nú löngu vaxinn uppúr slíku. Að lokum kveðja þeir félagar blaðamann með frönskum málshætti, til að tryggja að hannfari örugglega reynslunni ríkari og í heimspekilegum hugleiðingum frá þessum fundi en málshátturinn hljóðar svo:  “Einn er nóg, tveir er of mikið, þrír er of lítið”.

-SBM (Viðtalið birtist í Jólablaði Vikudags)

Nýjast