Þakklátur fyrir heiðurinn og er mjög gíraður

Egill Logi Jónasson bæjarlistamaður á Akureyri. Myndir akureyri.is  Elvar Örn Egilsson
Egill Logi Jónasson bæjarlistamaður á Akureyri. Myndir akureyri.is Elvar Örn Egilsson

„Ég er virkilega þakklátur fyrir þennan heiður og ætli ég orðið það ekki sem svo; mjög gíraður,“ segir Egill Logi Jónasson nýr bæjarlistamaður á Akureyri. Egill er framsækinn myndlistar- og tónlistarmaður segir í umsögn frá Akureyrarbæ, „sem hefur vakið athygli fyrir frumleg verk og ögrandi sýningar.“ Egill Logi gegnir lykilhlutverki í starfsemi Listagilsins og rekur m.a. tvær vinnustofur í húsnæði Kaktus, fyrir myndlist annars vegar og tónlist hins vegar. Hann hefur verið iðinn við að skapa vettvang fyrir unga og óháða listamenn, m.a. í gegnum tónlistarhátíðina Mysing.

Egill var í Brekkuskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. „Ég var ekki ákveðinn í hvað tæki við þá en systur mínar hvöttu mig til að sækja um í Myndlistaskólanum á Akureyri. Ég hafði alla tíða haft gaman af að teikna og úr varð að ég fór að þeirra ráðum, enda góð tillaga,“ segir Egill sem hélt eftir nám þar í Listaháskóla Íslandi. Hann lauk prófi þaðan úr myndlistardeild og flutti aftur heim til Akureyrar að því loknu.

Eitt af málverkum Egils Loga, Existential Dread nefnist það

Týndur og dapur

Í lífi hans tók við þungt tímabil þar sem fátt gekk upp og hann glímdi við þungyndi, „var týndur og dapur og sá lítinn tilgang með þessu lífi,“ segir hann. „Var bara mest að væflast, má segja að þetta hafi verið almennt volæði sem tók verulega á og var erfitt. Það kostaði mikið átak að koma sér upp úr rúminu og fara að gera eitthvað uppbyggilegt á ný, en með góðri aðstoð fjölskyldu og vina tókst það. Við tók mikil sjálfsvinna, enda var mín sjálfsmynd eiginlega alveg brotinn. Þetta var ekki létt verk en ég er feginn að mér tókst að ná mér upp úr þessu, enda ekki góður staður að vera á,“ segir hann. Nefnir að gamall skólafélagi úr Listaháskólanum, Jakob Veigar Sigurðsson hafi átt stóran þátt í að hann komst á réttan kjöl.

Mikilvægast að gefast aldrei upp

Egill nefnir að uppgjöf hafi oft verið freistandi möguleiki áður fyrr, enda örvætingin iðulega handan hornsins. „Þetta var oft og tíðum mikið ströggl og alls ekki sjálfgefið að fólki takist að starfa við sína list. Oft fær maður nei þegar sótt er um verkefnastyrki og það tekur alveg á, en mikilvægast er að gefast aldrei upp. Halda áfram þó brekkan sé brött og láta mótlæti ekki buga sig. Sjálfsefinn er fljótur að segja til sín og auðvelt að flýja og snúa sér að öðru. Ég er glaður að hafa komist í gegnum þessu erfiðu tímabil og finnst lífið bara hafa verið nokkuð bjart og skemmtilegt undanfarið,“ segir hann.

Fjölmörg verkefni eru framundan, en tvær vinnustofur eru í gangi undir sama þaki í Kaupvangsstræti, Listagilinu á Akureyri þar sem margt er brallað. Í öðru þeirra sinnar hann myndlist en hitt er fyrir tónlistarsköpun. Þá hefur prentun og framleiðsla á margs konar hlutum orðið æ fyrirferðarmeiri í hans listsköpun og heilmargt í gangi á þeim vettvangi.

Egill hefur tekið sér listamannsnafnið Drengurinn fengurinn og getið sér gott orð sem afkastamikill tónlistamaður frá því hann kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir um áratug. Þá starfrækir hann eins konar fyrirtæki undir nafninu DBS- Dream Boy Syndicate.

Skiptir mestu að gera eitthvað

Hann hyggst nýta tímann sem bæjarlistamaður vel og stefnir á að lokaafurð verði í formi sýningar og tónleika. „Það kemur í ljós í fyllingu tímans, eitthvað mun ég skapa og sýna, vonandi eitthvað nýtt og spennandi, en auðvitað er ég ekki búinn að ákveða enn hvernig lokaafurðin mun líta út. Í mínu huga skiptir stundum mestu máli að gera eitthvað, láta vaða en festast ekki bara í því að vera alltaf í undirbúningi. Það verður oft lítið úr því,“ segir Egill Logi.

Nýjast