Umgengni afleit og ásýnd verulegt lýti í umhverfinu

„Það er búið að ganga frá deiliskipulagi og framkvæmdaleyfi vegna geymslusvæðis liggur sömuleiðis fyrir. Því ætti ekkert að vera því að vanbúnaði hefja framkvæmdir við geymslusvæði og flytja þá hluti sem hafa varðveislugildi inn á svæðið í framhaldi af því,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands um ástand mála hjá fyrirtækinu Skútabergi á Moldhaugnahálsi.
Boðaðar framkvæmdir við varanlegt geymsluhúsnæði þar er enn ekki hafnar. Í framkvæmdaáætlun Skútaberg frá 8. apríl er gert ráð fyrir að vinna við geymslusvæðið hefjist nú um þessi mánaðamót, apríl og maí og að í september verði byrjað á því að flytja vörugáma inn á geymslusvæðið og þar á eftir flutningabíla með vörukössum.
Kemur til greina að beita þvingunarúrræðum
Að mati heilbrigðisnefndar eru umgengni á svæðinu afleit og ásýnd þess verulegt lýti í umhverfinu. „Ljóst er, að mati nefndarinnar að rækileg tiltekt á svæðinu þolir ekki frekari bið,“ segir í fundargerð nefndarinnar. Einnig kemur þar fram að með hliðsjón af ásýnd svæðisins og að teknu tilliti til framkvæmdaáætlunar Skútabergs gerir nefndin þá kröfur að tiltekt á svæðinu hefjist án frekari tafa. Fyrir 1. nóvember næstkomandi verði búið að fjarlæga alla gáma, vinnubúðareiningar og flutningarbíla með vörukössum af svæðinu og koma fyrir á þar til gerðu geymslusvæði eða farga eftir löglegum leiðum. Verði ekki brugðist við á fullnægjandi hátt að mati nefndarinnar kemur til greina að beita þvingunarúrræðum í þeim tilgangi að knýja fram úrbætur.