Fjölmörg verkefni fram undan að takast á við
„Það er mikið verk að vinna og fjölmörg verkefni fram undan sem takast þar á við,“ segir Björn Snæbjörnsson sem kjörinn var formaður Landssambands eldri borgara á landsfundi þess sem haldinn var í Reykjanesbæ. Helgi Pétursson lauk fjórða ári sínu í formannsstóli en formaður situr mest í fjögur ár. Björn var sá eini sem bauð sig fram og því sjálfkjörinn í embætti.
Björn sagði ýmis málefni brenna á eldri borgurum, kjaramálin væru þar ofarlega á baugi sem og húsnæðismál en þau voru til umræðu á landsfundinum auk fleiri mála. „Við eru full eldmóðs að takast á við þau verkefni sem við okkur blasa og væntum þess auðvitað að vel gangi og árangur náist.“
Björn segir að ötullega verði unnið að því að leiðrétta kjör þeirra sem lakast standa. „Innan hóps aldraðra er staðan misjöfn, sumir hafa það gott, aðrir þokkalegt en svo er hópur sem orðið hefur útundan og býr við verulega léleg kjör og því þarf að breyta,“ segir Björn.
Bæta kjör þeirra sem lökust hafa
Hann tekur sem dæmi að mikil gliðnun hafi orðið á milli lægstu launa sem t.d. 18 ára ungmenni nýkomin út á vinnumarkað fái og grunnlífeyris sem Tryggingastofnun greiði út. Þar muni nú tæplega 105 þúsund krónur, eldri borgaranum í óhag. Í þeim hópi er til að mynda fólk sem á lítinn sem engan lífeyrisrétt. „Launavísitalan hefur hækkað en grunnlífeyrir ekki og því er þetta gap sem nú hefur myndast þar á milli orðið verulega mikið. Við munum berjast fyrir því að bætur þeirra sem lökust hafa kjörin verði bætt,“ segir Björn.