Að leggja grunninn að framtíðinni Upplifun úr nútímafræði
Í ár eru 20 ár síðan fyrsti árgangurinn útskrifaðist úr nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri. Í tilefni þess var rætt við Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur sem var í þeim útskriftarárgangi. Hún sá tækifæri sem fólust í að vera hluti af fyrsta hópnum sem stundaði þetta áhugaverða nám.
„Með tilkomu nútímafræðinnar gafst í fyrsta sinn tækifæri til að fara í nám í hugvísindum á Akureyri og vakti það, ásamt þeirri þverfaglegu nálgun á menningu, samfélag og samtímann sem nútímafræðin byggði á, áhuga minn,“ segir hún. Þessi nýja leið vakti ekki aðeins áhuga hennar heldur einnig vonir um góðan grunn sem opnaði á fjölbreytta möguleika í framhaldinu, sem varð svo raunin.
Samheldni og skapandi umhverfi
Árin í nútímafræði eru Ragnheiði mjög minnisstæð, ekki síst vegna þess nána samfélags sem myndaðist innan hópsins. „Við vorum lítill, samheldinn námshópur sem tók virkan þátt í líflegum umræðum og verkefnavinnu,“ rifjar hún upp og bætir við að kennararnir hafi verið einstaklega áhugasamir og gefið mikið af sér.
„Þessi tími var afar gefandi og ég minnist hans með gleði og hlýju. Námsumhverfið var skapandi og við sem fyrsti hópurinn sem fór í gegnum námið fengum tækifæri til að koma með okkar sýn á þróun námsins,“ segir hún og undirstrikar þar með hversu dýrmæt þessi reynsla var, bæði fyrir persónulega og faglega þróun hennar.
Ragnheiður hefur fylgst með þróun nútímafræðinnar frá útskrift og gleðst yfir því hvernig námið hefur styrkt stöðu sína innan háskólasamfélagsins. „Það er afar gaman að sjá hvað nútímafræðingar eru í fjölbreyttum störfum og á ólíkum vettvangi, sem sýnir hversu góður grunnur námið er fyrir fjölbreytt störf,“ segir hún.
Hún telur einnig ánægjulegt að sjá hvernig skapandi og gagnrýnin hugsun heldur áfram að vera kjarninn í náminu, sem gerir það enn aðlaðandi fyrir þau sem vilja skilja og móta samtímann á framsækinn hátt.
Sterkur grunnur að fjölbreyttri framtíð
BA gráðan í nútímafræði lagði traustan grunn að starfsferli Ragnheiðar, bæði með vísindalegum vinnubrögðum og gagnrýnni hugsun. Hún lagði sérstaka áherslu á að nýta þá aðferðafræði sem í boði var sem hefur nýst henni vel alla tíð síðan.
Ragnheiður Jóna segir eitt af því áhugaverða við nútímafræðina sé að þar er hægt að velja sér áherslusvið og valdi hún samfélags- og hagþróunarfræði. „Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á byggðamálum og hélt áfram að skoða þau í meistaranámi sem ég kláraði í menningarstjórnun þar sem ég beindi sjónum að áhrifum uppbyggingar atvinnustarfsemi á sviði menningar og lista í fámennum samfélögum.“
Meðfram náminu í menningarstjórnun starfaði hún sem menningarfulltrúi á Norðurlandi eystra í 10 ár. Þá tók hún við sem framkvæmdastjóri aldarafmælis fullveldis Íslands og flutti til Reykjavíkur. „Það var einstakt tækifæri,“ segir hún og bætir við, „þar nýttist námið og reynsla mér vel og óhætt að fullyrða að þar hafi þau öguðu vinnubrögð sem nútímafræðin lagði grunn að skipt sköpum. Á þessum tíma var opinber stjórnsýsla farin að vekja áhuga hjá mér og lauk ég diplómu í þeim fræðum fyrir nokkrum árum. Að lokinni dvöl minni í Reykjavík var ég svo ráðin sem sveitarstjóri, fyrst í Húnaþingi vestra og síðar í Þingeyjarsveit og hef starfað við það síðastliðin sex ár.“
Þegar Ragnheiður Jóna er ekki að sinna starfi sínu nýtur hún þess að vera úti í íslenskri náttúru og segir fátt veita henni meiri ánægju en að fara í gönguferðir um fallega landið okkar. Við leyfum svo Ragnheiði Jónu að eiga lokaorðin: „Óhætt er að segja að nútímafræðin hafi opnað fyrir mér nýjan heim og er ég þakklát því tækifæri sem skapaðist með tilkomu hennar, tækifæri sem ég hefði annars ekki fengið. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að hægt sé að bjóða upp á fjölbreytt námsframboð á háskólastigi um land allt.“