Heldur fleiri konur á atvinnuleysisskrá en karlar

Í lok síðasta mánaðar voru 525 manns á atvinnuleysisskrá á Akureyri og hafði fækkað á skránni um 74 frá mánuðinum á undan og um 181 frá því í júní í fyrra. Heldur fleiri konur eru á atvinnuleysisskrá á Akureyri, eða 284, en karlar á skrá eru 241.  

Í Eyjafjarðarsveit voru 17 manns á atvinnuleysiskrá í lok síðasta mánaðar, 6 karlar og 11 konur. Þar hefur einnig fækkað á skrá frá mánuðinum á undan og frá júní í fyrra. Enginn er skráður atvinnlaus í Grýubakkahreppi en tvær konur eru á skrá í Grímsey. Í Hörgársveit voru 19 manns á atvinnuleysisskrá í lok júní sl., 13 karlar og 6 konur og fækkaði um tvo á skrá frá mánuðinum á undan.

Í Svalbarðsstrandarhreppi voru 5 á atvinnuleysisskrá í lok júní sl. 3 karlar og 2 konur. Í lok maí sl. var þar enginn á skrá en tveir í júní í fyrra. Í Þingeyjarsveit voru 20 manns á skrá í síðasta mánuði, 12 karlar og 8 konur og fækkaði um þrjá á skránni frá mánuðinum á undan. Í júní fyrra var enginn á atvinnuleysisskrá í Þingeyjarsveit. Í Dalvíkurbyggð voru 24 á skrá í júní sl., 9 karlar og 15 konur. Þar fækkaði á skrá frá mánuðinum á undan og miðað við júní í fyrra.

Á Norðurlandi eystra voru 746 á atvinnuleysisskrá í lok júní sl., 337 karlar og 409 konur. Frá mánuðinum á undan fækkaði um 114 og frá júní í fyrra fækkaði um 222 á skrá. Flestir atvinnulausir eru á aldrinum 20-34 ára, eða 337, af þessum 746. Skráð atvinnuleysi á landinu öllu í júní 2011 var 6,7% en var 7,4% í maí og 8,1% í apríl. Að meðaltali voru 11.704 manns atvinnulausir í júnímánuði og fækkaði atvinnulausum um 849 að meðaltali frá maí eða um 0,7 prósentustig.

Nýjast