Heitir fimmtudagar á Listasumri á Akureyri

Heitir fimmtudagar eru löngu orðnir ómissandi þáttur í Listasumri á Akureyri  og nú verður að venju boðið upp á einstaklega fjölbreytta dagskrá á níu tónleikum. Í Deiglunni í Gilinu verða fyrstu jazztónleikarnir undir þessu nafni haldnir á morgun, fimmtudaginn, 30. júní, kl. 21:30.  

Hið frábæra tríó Jónsson & More hefur leik en tríóið hefur getið sér gott orð á undanförnum misserum fyrir skemmtilegan og frumlegan flutning á verkum meistara Monk, Ornette, Coleman og Mingus. Á tónleikunum mun tríóið leika lög þessara meistara í bland við frumsamin lög. Jónsson & More tríóið er skipað þeim Ólafi Jónssyni saxófónleikara, Þorgrími Jónssyni bassaleikara og Scott McLemore, sem leikur á trommur. Stuðningsfyrirtæki Jazzklúbbsins til að halda Heita Fimmtudaga eru í ár: Akureyrarstofa, Listasumar á Akureyri, Norðurorka, Menningarráð Eyþings, FÍH, Flugfélag Íslands, Goya Tapas bar, Gula Villan og Sella ehf. Aðgöngumiðasala verður við innganginn og hefst einni klukkustund fyrir tónleika. Almennt verð er 2.000 krónur, 1.000 kr. fyrir félaga í Jazzklúbbi Akureyrar, en áskrift á 9 tónleika sumarsins er aðeins 4.500 krónur.

Nýjast