Heiti Potturinn stuttheimildamynd eftir Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur var frumsýnd á Skjaldbogarhátíðinni á Patriksfirði á laugardaginn. Harpa hélt einnig tónleika á hátíðinni, en hún semur tónlistina í myndinni ásamt því að tónverk eftir Hinn íslenska Þursaflokk, KiraKira og dj. flugvél og geimskip hljóðskreyta myndina. Myndin er einnig myndskreytt að hluta til af Láru Garðarsdóttur, myndskreyti.
Dagskrain.is tók Hörpu tali og spurði út í viðtökurnar: „Rosalega góðar viðtökur, það var hlegið eiginlega út alla myndina sem kom skemmtilega á óvart,“ sagði hún.
Harpa ætlar sér stóra hluti með myndina: „Hún verður sýnd í Bíó Paradís, ekki reyndar fyrr en í Haust. Við erum ennþá að klára pínulitla tæknilega hluti. Svo verður hún sýnd á Rúv í vetur svo allir geti séð hana,“ segir Harpa Fönn sem er nú þegar byrjuð að undirbúa að koma myndinni inn á erlendar kvikmyndahátíðir.
Heiti potturinn er framleidd af Askja films, sem er í eigu Evu Sigurðardóttur og hlaut styrk hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Harpa Fönn er sjálf meðframleiðandi myndarinnar.
Myndin er stutt heimildamynd sem fangar einstaka og heillandi menningu Íslendinga – umræðurnar og persónurnar í heita pottinum. Myndin færir áhorfandann inn í heim heita pottsins og fléttar saman myndskreytingum og hljóðmynd við klassíska heimildagerð. Umfangsefnið er Húnahópurinn sem mætir stundvíslega kl. 06:30 á hverjum morgni i í Vestubæjarlauginni og ræðir allt milli himins og jarðar. Áhorfandinn fær að fylgjast með samræðum og upplifa það að vera með í heita pottinum og hluti af Húnahópnum sem mætir sama hvernig viðrar. Harpa gekk til liðs við hópinn og fylgdi honum eftir í hálft ár en hópurinn kaus hana sem nýliða ársins á árlegri uppskeruhátíð.
Harpa Fönn er væntanleg til Húsavíkur í næstu viku til að undirbúa og setja í gang listahátíðina Skjálfanda, en það er listavika sem tekur við af Jónsviku sem Harpa hefur staðið fyrir árlega í Kaldbak við Húsavík um nokkurra ára skeið.
Dagskrain.is mun fjalla nánar um listavikuna síðar og þá verður einnig birt ítarlegt viðtal við Hörpu Fönn um Heita pottinn, tónlistina og lífið. /epe
Hér að neðan má sjá stiklu úr Heita pottinum: