Heimþráin úr „Borg óttans“

Sigurður Starr starfar sem dragdrottningin Gógó Starr og sinnti stöðu sem framkvæmdastjóri Hinsegin …
Sigurður Starr starfar sem dragdrottningin Gógó Starr og sinnti stöðu sem framkvæmdastjóri Hinsegin daga árið 2021.

Það er ekki óalgengt að fólk úr landsbyggðinni flykkist suður í nám eða til að elta drauma sína í „Borg óttans“ og þrátt fyrir að hafa búið fyrir sunnan í einhvern tíma þá verður Akureyri alltaf „heima“ fyrir suma, en við spurðum nokkra unga og áhugaverða Norðlendinga sem fluttu suður á svipuðum tíma hvað þau eru að gera fyrir sunnan, jólahefðirnar þeirra og hvað þau sakna mest við heimabyggðina sína.

Binni Glee saknar rólegheitanna

Brynjar Steinn er betur þekktur sem áhrifavaldurinn Binni Glee og fyrir að vera í raunveruleikaþáttunum Æði á Stöð 2. Hann flutti suður í maí á þessu ári því það voru fleiri verkefni í boði fyrir sunnan, en saknar samt fjölskyldunnar, vinanna og rólegheitanna sem Akureyri býður upp á.

Binni Glee

Brynjar Steinn er þekktur á samfélagsmiðlum sem Binni Glee og er raunveruleikastjarna úr Æði á Stöð 2.

 „Það er svo mikið „chaos“ í borginni og alltaf rigning. Ég bý í miðbænum og ég hef ekki fundið fyrir svona miklum kulda og þó er ég vanur kuldanum á Akureyri. Ég er týpan sem fær aldrei kvef eða hálsbólgu og það er búið að gerast óvenju oft.“

Brynjar getur samt ekki beðið eftir að koma norður til að njóta jólanna með fjölskyldunni og sameinast bílnum sínum, „Sakna líka að keyra. Hef ekki ennþá mannað mig upp að keyra í Reykjavík þannig ég skildi bílinn eftir fyrir norðan.“
Hann mælir með að nota jólin til að slappa af, fá sér kakó með jólakökum, horfa á jólamyndir og rölta um til að horfa á ljósin. Jólahefðin hans væri að kíkja í Jólahúsið á Hrafnagili á Þorláksmessu.

Hrísey kemur til Grétu

Gréta Kristín Ómarsdóttir frá Hrísey er í dag leikstjóri og listrænn stjórnandi Kjallarans og Loftsins hjá Þjóðleikhúsinu. Hún flutti suður árið 2012 í nám í kynja- og bókmenntafræði við HÍ og síðan á sviðshöfundabraut hjá Listaháskóla Íslands.

Hennar jólahefð er náttúrulega að mæta alltaf á frumsýningu á annan í jólum hjá Þjóðleikhúsinu og finnst það alltaf jafn hátíðlegt, annars mælir hún með að missa sig ekki í stressinu og fylla dagskrána af óþarfa álagi. „Það gerist ekkert hættulegt þó að einhver skúffa sé óþrifin.“
Gréta hefur alltaf komið heim um jólin en ekki þetta ár, í staðinn kemur fjölskyldan frá Hrísey til hennar, en Gréta saknar samt heimabyggðarinnar sinnar.
„Ég sakna útsýnisins, návígisins við náttúrna, niðsins í hafinu og myrkurins á veturna, svo maður sér hverja einustu stjörnu á himninum. Svo sakna ég þess að geta ekki kíkt í heimsókn til ömmu hvenær sem er.“

Vala Eiríks bannar samviskubit um jólin

Vala Eiríks

 

Valdís Eiríks sinnir alls konar störfum á Bylgjunni, gefur út tónlist og var sigurvegari í annarri þáttaröð af „Allir geta dansað“.

 Valdís Eiríksdóttir, einnig þekkt sem Vala Eiríks í útvarpinu, flutti suður til að leysa af á FM957 árið 2015 og því var ekki aftur snúið, en hún hefur haft nóg að gera síðan þá.

Þegar hún er ekki að talsetja teiknimyndir, lesa inn á auglýsingar eða gefa út tónlist þá vinnur hún sem tæknistjóri og framleiðandi hjá Bylgjunni og leiðir óskalagaþáttinn þar.
Þó að Reykjavík sé orðið „heima“ fyrir Völu þá líður henni eins og hún tilheyri tveimur heimum,
„Í Reykjavík upplifir fólk mig sem Akureyring og á Akureyri finnst mér fólk vera fariđ ađ upplifa mig sem Reykvíking! Ég er samt alltaf Akureyringur og Hörgdælingur!“
Eins og er þá er Vala ekki með neinar fastar jólahefðir „Ég mun eflaust skapa mér einhverjar oftursætar hefðir þegar ég eignast mína eigin fjölskyldu, hugsa ég.“
Helsta jólaráð Völu er að leyfa sér hluti á jólunum. „Njóta samverunnar međ þeim sem viđ elskum! Borđa allan góđa matinn! Hanga og haugast! Allt án samviskubits! Stranglega bannađ ađ hafa samviskubit, sérstaklega um jólin.“
Þrátt fyrir fullbókaða dagskrá, mun Vala gera sér flugferð norður til að bæta fjölskyldunni sinni þennan „Völuskort“ og á sama tíma sjálfri sér svo kallaðan „Akureyrarskort“ eins og hún lýsir því.

Dragdrottningin vill alvöru snjó

Sigurður Starr Guðjónsson vinnur í dag sem dragdrottning og viðburðastjóri fjölda listasýninga fyrir sunnan með unnusta sínum.
Þegar hann flutti suður árið 2014 kom honum á óvart að mjög fáir hafi farið til Akureyrar eða ferðast almennilega innanlands, „Ég hef hitt fólk sem hefur ekki farið norðar en Borgarnes eða sunnar en Selfoss – en hefur samt farið til Spánar eða Flórída!“
Auk fjölskyldunnar saknar Sigurður snjósins mest.
„Ég elska svona alvöru snjó eins og er fyrir norðan. Snjór sem brakar og hægt er að rúlla upp í snjókarl. Snjór sem liggur yfir bænum eins og bráðnaðir sykurpúðar.“
Líkt og Binni, Gréta og Vala nefndu, mælir Sigurður með að taka því rólega og taka frá kvöld fyrir afslöppun, því jólin eigi það til að vera stressandi að hans mati. „Hvort sem það er kósíkvöld með kakói og klassískum jólamyndum eða fara í göngutúr og njóta ljósanna, skreytinganna og fá sér ís, skiptir engu máli hversu kalt er úti – það er aldrei of kalt fyrir ís!“

KH


Athugasemdir

Nýjast