Heimspeki Magnúsar

Siggi Gunnars
Siggi Gunnars

Siggi Gunnars skrifar:


 

Ég var svo heppinn að vera gestur á 75 ára afmælistónleikum Magnúsar Eiríkssonar á dögunum. Tónleikarnir voru einstaklega vel heppnaðir, enda kannski annað varla hægt því laga- og textasmíðar Magnúsar eru á heimsmælikvarða. Það eru ekki bara snjöllu melódíurnar og hljómarnir sem gera lögin hans svo einstök, Magnús er nefnilega mikill heimspekingur og setur oft fram snjalla og áhugaverða sýn á lífið í textunum sínum.

Allsnakinn kemurðu í heiminn
og allsnakinn ferðu burt
frá þessum dauðu hlutum
sem þér fannst þú hafa dregið á þurrt.

Þessar línur í laginu um allt ómissandi fólkið sem hvílir í kirkjugörðunum snertu mig sérstaklega á tónleikunum. Mér hefur nefnilega gjarnan færst of mikið í fang. Ég hef átt það til að vera of upptekinn í allskonar, finnast maður alltaf þurfa að standa sig svo vel, færast ofar í metorðastiganum og þéna meira. Á meðan þýtur lífið hjá, fólk kemur og fer, tímamót koma og fara, fólk breytist, fólk eldist, þú breytist, þú eldist. Maður á það til að gleyma sér svo mikið í því að sinna dauðu hlutunum að maður gleymir því sem er lifandi og gefur lífinu gildi - fjölskyldu, vinum og síðast en ekki síst sjálfinu.

Ég er að læra. Ég fer oftar á heimaslóðirnar og leyfi mér að vera með fólkinu mínu þar. Gef mér tíma og er ekki alltaf að drífa mig aftur til baka. Ég samfagna tímamótum fólksins míns og fagna mínum tímamótum með þeim, án þess að vera á hlaupum. Ég leyfi mér að sitja í uppáhalds stólnum mínum í heilan dag, lesa bók og njóta þess að þurfa ekki að vera mættur einhversstaðar. Reyni að hringja oftar í vini mína að tilefnislausu og gera meira af hversdagslegum hlutum með þeim. Ég segi ekki já við öllum verkefnum og þarf ekki að mæta á alla fundina. Það þarf ekki að gera allt. Á endanum gerir þetta mig svo eflaust að betri starfskrafti, því ég nýt stundanna í vinnunni þá enn betur.

Ég er ennþá að læra en markmiðið er að eyða ekki lífinu í að vera ómissandi, heldur sem fullur þátttakandi í núinu - með þeim sem mér þykir vænt um. Að gera meira af því sem mér finnst skemmtilegt og gefur lífinu raunverulegt gildi. Þetta mun ekki alltaf takast, sem er  allt í lagi því maður verður víst aldrei fullkominn. Það væri hvort eð er ekkert gaman að vera alveg gallalaus!


Athugasemdir

Nýjast