11.desember - 18.desember - Tbl 50
Heimsástandið er töluverður stoppari
mth@vikubladid.is
„Það er allt klárt hjá okkur, það eina sem eftir er til að hægt sé að opna er lokaúttektin og henni seinkar því miður vegna óviðráðanlegra aðstæðna hjá fyrirtækinu sem sér um þá úttekt,“ segir Anita Hafdís Björnsdóttir, en hún og Jón Heiðar Rúnarsson auk eigenda ævintýrafyrirtækjanna Zipline Iceland og True Adventure í Vík eiga fyrirtækið, ZiplineAkureyri sem sett hefur upp alls fimm fluglínur yfir Glerárgil.
Unnið hefur verið að því hörðum höndum að kom línum upp og gera aðstöðu í kringum þessa nýju afþreyingu í akureyskri ferðaþjónustu. Anita segir að upp hafi komið seinkanir hver á eftir annarri og megi rekja þær allar til þess ástand sem ríkir í heiminu um þessar mundir. „Heimsástandið virðist vera töluverður stoppari,“ segir hún. „Allt sem við höfum þurft að gera hérna heima hefur gengið vel, enda mikil jákvæðni fyrir verkefninu. Við erum á fullu að reyna að leysa þessa síðustu hindrun sem fyrst og erum auðvitað bara bjartsýn.“
Anita segir allar línur komnar upp og tilbúnir til notkunar. Allur búnaður sem til þarf er sömuleiðis komin, búið er að þjálfa starfsfólkið og þá eru öll leyfi til reiðu, „með fyrirvara um lokaúttekt hjá óháðum aðila,“ segir hún. „Við erum algerlega sammála því að hleypa almenningi ekki á línurnar fyrr en öll öryggisatriði hafa verið staðfest.“
Heimsástandið hefur áhrif
Óháði aðilinn sem gerir lokaúttekina er sérfræðingur í Þýskalandi og átti upprunalega að koma til landsins og framkvæmda verkið í byrjun síðustu viku, en nú segir Anita að því miður sjái þau fram á að tafir verði lengra fram í júlí. „Við erum í raun að upplifa bein og óbein áhrif af veikindum, vöruskorti og öðru heimsástandi. Leiðinda áminning um þá ljómandi fallegu staðreynd að við erum öll tengd öllum og öllu í heiminum
Við erum samt heppin, erum að sjá mun meiri tafir og vesen í kringum okkur. Hjá okkur er þó alveg að sjást fyrir hornið.“
Anita segir að lánið leiki við þau að því leyti að þau séu með dásamlegt starfsfólk sem staðið hafi með félaginu í öllu sem upp hefur komið. Það eigi líka við bæjarbúa, tilvonandi notendur, Akureyrarbæ og meðeigendur, sem „hafa sýnt okkur mikinn skilning og stuðning í þessu hindrunarhlaupi. Þannig að við erum þakklát,“ segir hún.