Sverrir fæddist á Akureyri, en var frá unga aldri til fullorðins ára í sveit í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Eftir að skólagöngu lauk var hann þar vinnumaður í nokkur ár. Sverrir lærði húsasmíði hjá Grími Valdimarssyni, en lengst af rak hann eigið trésmíðaverkstæði. Hann starfaði nær hálfa öld við smíðar, síðustu áratugina eingöngu við gömul hús. Akureyringar áttuðu sig á því, hvílík bæjarprýði gömul hús gátu verið, eftir að Sverrir og hans völundar voru búnir að klæða þau í sparifötin. Þegar heilsan tók að gefa sig tók við nýr kafli í lífi Sverris. Hann fór að huga að smámunasafni sínu, sem þá þegar var kominn vísir að í gömlum útihúsum á bak við íbúðarhús hans við Aðalstræti 38. Þarna náði hann að safna að sér yfir tuttugu þúsund munum og margir þeirra voru til í mörgum eintökum. Hann átti til dæmis gamlan saum og mínusskrúfur í tonnavís. Hann átti einnig smíðatólin, sem móðir hans færði stráknum sínum þegar hann var enn á barnsaldri. Í smámunasafninu eru einnig allir þeir blýantsstubbar, sem Sverrir hefur notað frá því hann byrjaði að læra smíðar árið 1946. Á safninu er einnig mikið af handverkfærum, tólum, tækjum og smámunum, sem voru í fullu gildi um miðja síðustu öld.
Þegar Sverrir fann að degi var tekið að halla ákvað hann að launa Eyjafjarðarsveit fóstrið með því að gefa sveitinni safnið. Því var komið fyrir í Sólgarði, sem var skóli og félagsheimili Saurbæjarhrepps fyrir sameiningu hreppanna þriggja innan Akureyrar. Smámunasafn Sverris var opnað árið 2003 og hefur safnið vakið mikla eftirtekt og aðsóknin verið í samræmi við það. Gísli hefur unnið að myndinni um Sverri af og til undanfarin áratug. Elstu viðtölin eru frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, en auk viðtala við Sverri er rætt við samferðamenn hans og lærisveina. Lífsganga Sverris er hryggjarstykkið í myndinni, en auk þess fléttast inn í framvindu hennar brot úr sögu Akureyrar og Eyjafjarðar.
Kona Sverris var Auður Jónsdóttir, sem lést í lok síðasta árs eftir langvarandi glímu við MS sjúkdóminn.