Heildarrekstrartap Norðurorku rúmir 2,3 milljarðar á síðasta ári

Heildarrekstrartap Norðurorku hf. á síðasta ári eftir fjármagnsliði nam rúmum 2,3 milljörðum króna. Gengistap fyrirtækisins nam 2,4 milljörðum króna en hagnaður fyrir fjármagnsliði var rúmar 500 milljónir króna. Heildarvelta Norðurorku var tæpir 2 milljarðar króna í fyrra.  

Ásgeir Magnússon formaður stjórnar Norðurorku sagði að afkoman væri vissulega skelfileg, enda væru nær allar skuldir félagsins í erlendri mynt "og Norðurorka skuldar töluvert af peningum." Eiginfjárstaðan var réttu megin við núllið en Ásgeir sagði að Norðurorka ætti mikið af duldum eignum en ekki hafi verið farið í að endurmæta þær líkt og sum önnur orkufyrirtæki hafa gert. "Við þurfum greinilega að fara að skoða það vandlega líka."

Ásgeir sagði að staða Norðurorku væri sterk þrátt fyrir allt og það skapaðist fyrst og fremst af því hvernig fyrirtækið er byggt upp. Hann sagði að reksturinn hafi verið nokkuð hefðbundinn á síðasta ári, miklar framkvæmdir verið í gangi, sem ekki byrjuðu að dragast saman fyrr en undir árslok. Ásgeir sagði jafnframt að í þeirri stöðu sem er uppi í þjóðfélaginu hafi verið gripið til ýmissa aðhaldsaðgerða hjá fyrirtækinu. Aðalfundur Norðurorku var haldinn í vikunni.

Nýjast