Heildarfjöldi frjókorna í ágúst meiri en sjö undanfarin sumur
Hámark grasfrjóa hefur aldrei komið jafn seint og í ár en síðast gerðist það sumarið 1998, þann 27. ágúst, þegar frjótalan komst í 260. Fyrsti dagur án frjókorna í lofti kom 15. ágúst, sá dagur var jafnframt með mesta úrkomu í ágúst. Grasfrjó urðu tæplega eitt þúsund. Undanfarin sumur hafa þau verið færri og þarf að fara aftur til sumarsins 2005 til að finna sambærilegan fjölda. Frjótalan sveiflaðist mikið dag frá degi og segja má að topparnir hafi orðið fjórir, sá fyrsti 4. ágúst, síðan þann 11. þá 23. og að lokum þann 30.
Það stefnir í að sumarið 2011 verði í tæpu meðallagi (1425 frjó/m3) hvað heildarfjölda grasfrjóa varðar en verði tíðarfar í september gott geta komið grastoppar þó svo frjótalan verði aldrei mjög há og fáir dagar í hverjum toppi. Til þessa hefur frjótala grasa í september farið hæst í 41 en það var þann 9. september 2002 og svo seint sem 21. september hefur frjótalan náð 20 sem gerðist árið 1998. Þetta kemur fram á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.