Vaðlaheiðargöng hf. og íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Computer Vision ehf. hafa samið um að Computer Vision greini umferð ökutækja í báðar áttir á þjóðveginum á Svalbarðsströnd í eitt ár til undirbúnings því að aðstandendur ganganna setji upp gjaldskrá og ákveði hvernig staðið skuli tæknilega að innheimtu veggjalds í Vaðlaheiðargöngum.
Í tilkynningu segir að settar verði upp myndavélar tengdar hugbúnaði og ökutækjaskrá til að „lesa“ skráningarnúmer bíla sem fram hjá er ekið. Þannig má fá upplýsingar um heildarfjölda ökutækja á tilteknu tímabili, sundurliðun tegunda ökutækja eftir þyngd, sundurliðun á búsetu eigenda eftir póstnúmerum, fjölda bílaleigubíla og hvaða ökutæki tilheyra fyrirtækjum og hver eru í einkaeigu. Meðferð upplýsinga er í samræmi við kröfur Persónuverndar og Bifreiðaskrár þar að lútandi. Sett verða upp upplýsingaskilti við veginn að fyrirmælum Persónuverndar til að vekja athygli vegfarenda á upplýsingasöfnuninni og tilgangi hennar.
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir að umferðargreining sé nauðsynlegur liður í undirbúningi þess að taka í gagnið samgöngumannvirki sem vegfarendur borgi fyrir að nota. Hér sé valin skilvirk og einföld leið til að afla upplýsinganna og stíga þar með skref í átt að því að búa til gjaldflokka og og ákveða hvernig staðið skuli að stafrænni innheimtu veggjalds í Vaðlaheiðargöngum.
Samningur Vaðlaheiðarganga og Computer Vision kveður ekki á um sjálfa gjaldheimtuna en Ársæll Baldursson, framkvæmdastjóri Computer Vision, segir að tæknilega séð megi auðveldlega leysa innheimtumál í veggöngum, á bílastæðum og fjölförnum ferðamannastöðum með sjálfvirku innheimtukerfi sem geti tengst greiningu og vöktun á borð við þá sem verður á Svalbarðsströnd.