Hefja slátt áður en fé er sleppt

Þórólfur Ómar Óskarsson bóndi, sendi okkur þessa myn en hann byrjaði að slá í gær sunnudag.
Þórólfur Ómar Óskarsson bóndi, sendi okkur þessa myn en hann byrjaði að slá í gær sunnudag.

Einstaklega mildur vetur og blíða í maímánuði hefur komið  vel við bændur í Eyjafirði þetta vorið.

Þórólfur Ómar Óskarsson, bóndi á bænum Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit hóf til að mynda fyrsta slátt í gær sunnudag. Hann sagði í samtali við Vikudag að spretta væri með eindæmum góð ekki síst öll nýrækt. Í gær hafi hann slegið tvo hektara við Steinhóla, gegnt Grænuhlíð hvar hann býr sjálfur ásamt föður sínum  Óskari Kristjánssyni.

Hann þakkar sprettuna einstakri tíð í vetur, jörð hafi aldrei frosið hjá honum og hann hafi borið óvenju snemma á tún. Hann segist sjá það fyrir sér að almennur sláttur geti hafist í Eyjafirði innan 10 daga. Ef það gengur eftir verður sláttur hafinn áður en fé verður sleppt á beit en reglur segja til um það að ekki megi sleppa fyrr en eftir 15. júní. Það sé mjög óvanalegt að sláttur sé hafin áður en búið er að sleppa fé.

Nýjast