Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur verið stuðningsmaður Vaðlaheiðarganga frá upphafi og hann vonast til að hægt verði að ráðast í framkvæmdir sem fyrst. Við höfum verið að berjast fyrir því að koma af stað framkvæmdum, til þess að fá hjól atvinnulífsins til þess að snúast hraðar og Vaðlaheiðargöng eru hluti af því. Varðandi þá neikvæðu umræðu sem hefur verið í gangi um framkvæmdina, sagði Guðbjartur að það sama hafi verið upp á teningnum varðandi Hvalfjarðargöng en að hlutirnir hafi farið á annan veg. Það kemur mér því á óvart hversu neikvæð umræða er um Vaðlaheiðargöng, þótt vissulega séu önnur verkefni brýn. Þó einhver halli yrði í lokin, þá tel ég þetta mjög hagkvæma framkvæmd og að það eigi að fara í hana sem fyrst. Ég hef verið talsmaður þess að við tökum upp veggjöld í landinu í heild og breytum úr þessum eldsneytisgjöldum yfir í almenn veggjöld. Ég var á móti því að það væri aðeins á einum stað í landinu sem verið væri að innheimta veggjöld, eftir fyrstu 10 árin í Hvalfjarðargöngum. Sú framkvæmd hefði þó aldrei farið í gang nema með veggjöldum og ég lít með svipuðum hætti á Vaðlaheiðargöng, sagði Guðbjartur.
Hagkvæm framkvæmd
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri sagðist alltaf hafa haft þá trú á ráðist yrði í verkefnið. Við vitum að framkvæmdin er hagkvæm og mikilvæg fyrir þetta svæði og við munum leggja okkar að mörkum til þess að hlutirnir geti gengið eftir. Málið er komið þetta langt og nú er bara sjá hvort Alþingi hefur kjark til að klára það. Við höfum alltaf fundið fyrir stuðningi við verkefnið, þótt einstaka þingmenn, sem hafa fengið ótrúlega athygli í fjölmiðlum, hafi reynt að tala verkefnið niður, sagði Eiríkur Björn.
Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um tveggja milljarða króna lán til Vaðlheiðarganga. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi, verður hægt að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Fjármálaráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að hún sé mjög spennt fyrir göngunum og að hún sé sannfærð um að ráðast eigi í þessa framkvæmd. Hún hefur jafnframt sagt að allar líkur séu á því að hægt verði að fjármagna framkvæmdina með veggjöldum. Ef dragi úr umferð komi tekjurnar seinna inn en að þá sé mögulegt að lengja í láninu.