Haukur með tvö í sigri KA
Haukar Heiðar Hauksson fyrirliði KA skoraði tvívegis fyrir norðanmenn sem lögðu Víking frá Ólafsvík í miklum markaleik á Akureyrarvelli í dag í 1. deild karla í knattspyrnu. Lokatölur urðu 4:3. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem Haukar Heiðar, sem er bakvörður og ekki þekktur fyrir markaskorun, skorar tvívegis í einum og sama leiknum. Hann þurfti hins vegar að yfirgefa völlinn skömmu eftir seinna markið en hann virtist hafa misstigið sig. Haukur skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleik og KA hafði yfir 2:0 í leikhléi.
Einnig skoruðu þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Daniel Howell fyrir KA en mörk gestanna skoruðu þeir Nicholas Efstathiou, Helgi Óttarr Hafsteinsson og Eldar Masic.
Leikurinn skipti litlu máli fyrir bæði lið en KA-menn fara með sigrinum upp í 26 stig og eru nú komnir í sjöunda sæti deildarinnar. Víkingur hefur 28 stig í sjötta sæti.