Haukar lögðu Akureyringa sannfærandi að velli í kvöld, 26-18, á heimavelli sínum í N1-deild karla í handknattleik. Haukar höfðu þriggja marka forystu í hálfleik, 10-7, og keyrðu yfir norðanmenn í seinni hálfleik. Landsliðsmarkvörðurinn í liði Hauka, Aron Rafn Eðvarðsson, gerði Akureyringum lífið leitt en hann varði 23 skot í leiknum. Bjarni Fritzson var markahæstur í liði norðanmanna með sex mörk og Oddur Gretarsson kom næstur með fjögur mörk. Sveinbjörn Pétursson varði tólf skot í marki Akureyrar. Sveinn Þorgeirsson og Stefán Rafn Sigurmannsson voru markahæstir í liði Hauka með sex mörk hvor. Haukar hafa 25 stig á toppnum en Akureyri 22 stig í þriðja sæti.