Haukar höfðu betur á Ásvöllum

Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk í kvöld.
Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk í kvöld.

Haukar lögðu Akureyringa að velli með eins marks mun, 23-22, í spennuþrungnum leik á Ásvöllum í kvöld í N1-deild karla. Haukar höfðu frumkvæðið allan leikinn en Akureyringar gáfust aldrei upp og lokamínúturnar voru rafmagnaðar af spennu. Heimir Óli Heimisson var hetja Hauka en hann skoraði sigurmarkið um 40 sekúndum fyrir leikslok.

Með sigrinum fara Haukar upp í sex stig og tylla sér upp að hlið Fram á toppnum, sem leikur þessa stundina gegn Val á Hlíðarenda. Akureyri er hins vegar aðeins með tvö stig í sjötta sæti og þriðji tapleikurinn í röð hjá þeim staðreynd.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel í kvöld og höfðu frumkvæðið framan af. Haukar komust í 3-1 og svo 8-5 um miðjan síðari hálfleik. Sá munur hélst fram undir lok fyrri hálfleiks en Haukar léku manni færri síðustu tvær mínútur hálfleiksins og það nýttu gestirnir sér og minnkuðu muninn í eitt mark fyrir hlé, 14-13.

Haukar voru fljótir að auka muninn í þrjú mörk á ný í seinni hálfleik og breyttu stöðunni í 16-13 og komust svo fjórum mörkum yfir, 18-14, er sjö mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Norðanmenn voru lengi í gang í seinni hálfleik en þeir voru ekki af baki dottnir og minnkuðu muninn í 18-17 um miðjan síðari hálfleik. Skömmu síðar gat Akureyri jafnað metin en Bergvin Gíslason lét Birki Ívar Guðmundsson verja frá sér. Þess í stað juku Haukar muninn í tvö mörk, 19-17. Næstu mínútur var jafnt í tölum og spennan í hámarki á Ásvöllum.

Akureyri tókst að jafna metin í 20-20 er tíu mínútur voru til leiksloka og þegar sex mínútur lifðu leiks var staðan 21-21 og allt í járnum. Bjarni Fritzson fékk tækfæri á að koma norðanmönnum yfir skömmu síðar í fyrsta skipti í leiknum en Birkir Ívar var Akureyringum erfiður og varði í markinu. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka var enn jafnt í tölum, 22-22, og ómögulegt að spá hvorum megin sigurinn myndi detta. Þegar ein mínúta var eftir tóku Haukar leikhlé og staðan enn 22-22.

Heimir Óli Heimisson kom Haukum í 23-22 með marki þegar 45 sekúndur voru eftir og norðanmenn héldu í sókn. Bjarni Fritzson fór út úr horninu en þar beið hans Birkir nokkur Ívar sem varði og tryggði Haukum sigurinn. Lokatölur 23-22.

Heimir Óli Heimisson var markahæstur Haukamanna með 7 mörk og Birkir Ívar Guðmundsson varði 16 skot í markinu. Hjá Akureyri var Bjarni Fritzson markahæstur með 8 mörk og Oddur Gretarsson skoraði 5. Sveinbjörn Pétursson varði 13 skot í marki gestanna.

Nýjast