Hátt í fimm þúsund manns sóttu menningarviðburði um helgina
Það var fullt út úr dyrum í Menningarhúsinu Hofi, hjá Leikfélagi Akureyrar og á Græna hattinum um helgina og sóttu tæplega fimm þúsund manns viðburði af ýmsum toga á þessum stöðum um liðna helgi. Mikill fjöldi fólks mætti á tónleikana: "Í minningu Sissu" í Hofi á föstudagskvöld. Á laugardaginn hélt Dalvíkingurinn Friðrik Ómar upp á þrítugsafmælið sitt með stæl með þrennum tónleikum þar sem hátt í fimmtánhundruð gestir héldu upp á daginn með afmælisbarninu.
Á sunnudaginn fylltist húsið af börnum sem voru komin til að sjá og hlýða á söguna um tónelsku músina Maxímús sem var komin í heimsókn í Hof í fyrsta sinn. Það voru yfir sextíu nemendur úr Tónlistarskólanum á Akureyri ásamt hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem gæddu söguna lífi. Uppselt var á tónleikana og komust færri að en vildu. Benedikt Kristjánsson tenór og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari fluttu ljóðaflokkinn Die Schöne Müllerin eftir Schubert í Hömrum, minni sal Hofs, á sunnudagskvöldið og var gerður góður rómur að flutningi þeirra félaganna. Alla helgina stóð einnig yfir í Hofi árlegur fundur skólastjóra tónlistarskóla, en skólastjórar tólistarskóla hvaðanæva af landinu sóttu fundinn. Meðlimir hljómsveitarinnar Ný Danskrar heimsóttu Leikfélag Akureyrar um helgina og var húsfyllir á tveimur sýningum af Nýdönsk í nánd. Og á Græna hattinum var uppselt á tvenna tónleika hjá Helga Björns og reiðmönnum vindanna. Það er ljóst að fjölbreytnin í menningarlífinu á Akureyri er mikil og Norðlendingar duglegir að sækja viðburði.