Hátt bensínverð og kuldatíð hafa haft áhrif á ferðalög

Færri Íslendingar hafa lagt leið sína norður í land en vanalega það sem af er sumri, en svo virðist sem álíka margir útlendingar séu á ferðinni.  Um liðna helgi var mikið um að vera á Akureyri, m.a. tvö stór fótboltamót og var margt um manninn í bænum að vanda.  

„Helgin var stór og sambærileg við undanfarin ár hjá okkur," segir Arinbjörn Þórarinsson veitingamaður á Greifanum.  Hann segir að það sem af er sumri hafi minna sést af Íslendingum á ferðalagi, en svipaður fjöldi útlendinga hafi verið á ferðinni.  „Veðrið hefur mest að segja um hversu margir Íslendingar eru á ferðinni hjá okkur en klárlega hjálpar hátt bensínverð ekki til," segir Arinbjörn.   

Það er ekki bara bensínverðið sem ræður, segir hann. „ Fólk hefur áþreifanlega minna á milli handanna þar sem skattar, opinber þjónusta/gjöld og matvælaverð svo eitthvað sé nefnt hefur farið ört hækkandi.  Í heildina kvörtum við þó ekki þó vissulega hafi meira líf verið yfir þessu í fyrra."

Guðmundur Tryggvason veitingamaður á Bautanum segir að liðin helgi hafi verið í lagi, en heldur færra fólk hafi þó verið á ferðinni en oft áður þessa fyrstu helgi í júlí. Það sama megi segja um það sem af er sumri, en kuldatíð í júní hafi örugglega dregið úr löngun höfuðborgarbúa að skjótast norður.  Verð á eldsneyti geri svo að verkum að fólk fer í styttri ferðir en áður. „Menn dragast upp í Borgarfjörð með nestisboxin sín," segir hann, en vonar að íbúar höfuðborgarsvæðisins muni láta það eftir sér að bruna norður í sæluna.  „Þetta var alveg ágæt helgi og við vanþökkum hana ekki, þó svo hún hafi verið örlítið rýrari en vant er," segir Guðmundur.

Nýjast