Hugtakið vímulaus hátíð þýðir í MA að þátttakendur hvorki neyta áfengis eða annarra vímugjafa á hátíðinni né koma þangað eftir að hafa neytt þeirra annars staðar. Nemendur MA telja það forréttindi að fá tækifæri til að njóta vímulausrar stórhátíðar þegar eðlilegt er talið að fólk á þessum aldri skemmti sér með öðru móti. Undirbúningur vegna hátíðarinnar hófst fyrir nokkrum vikum, enda er mikið verk að skipuleggja. Sérstök skreytingarnefnd, skipuð tugum nemenda, sá um að skreyta Höllina frá toppi til táar. Ótal nefndir komu að undirbúningi, þar sem allir unnu saman í sátt og samlyndi. Öll þessi störf voru í umsjá stjórnar Hugins, skólafélags MA. Formaður Hugins, inspectrix Scholae er Anna Elvíra Herrera Þórisdóttir.
Veitingahúsið Bautinn sá um matinn, en nemendur sjá um að þjóna til borðs, leika tónlist undir borðhaldi og flytja frumsamda skemmtidagskrá. Kvöldinu lýkur svo með dansleik en þar leika hljómsveitirnar Sometime og Land&Synir, en Þuríður og hásetarnir leika fyrir gömlu dönsunum á efri hæðinni.