Unnið hefur verið úr 16.500 tonnum af hráefni hjá nýja hátæknifiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík en húsið var tekið í notkun í ágúst í fyrra. Þetta er metframleiðsla, fyrr met er frá árinu 2018 þegar unnið var úr tæplega 15.000 tonnum af hráefni.
Fjögurra vikna sumarleyfi hófst í vikunni hjá fiskvinnsluhúsinu á Dalvík og taka starfsmenn í landvinnslu ÚA á Akureyri við keflinu, þeir koma tvíefldir til vinnu á morgun eftir fjögurra vika sumarleyfi sem segja má að hafi einkennst af einstakri veðurblíðu. Með þessu fyrirkomulagi, að loka landvinnslum til skiptis vegna sumarleyfa er alltaf ein vinnsla í gangi til að þjónusta viðskiptavinir fyrirtækisins árið um kring. „Það er mjög mikilvægt í viðskiptum með matvæli nú til dags,“ segir á heimasíðu Samherja.
Uppistaða þess hráefnis sem unnið var í nýja húsinu á Dalvík var þorskur en einnig var meira unnið af ýsu en áður hefur verið gert og gekk sú vinnsla vel.
Kórónuveirufaraldur setti mark sitt á alla helstu markaði heims liðið ár en fram kemur að þrátt fyrir það hafi Samherja tekist að selja allar afurðir sínar á verði sem félagið sætti sig við. Helstu viðskiptavinir eru stórmarkaðir í Evrópu. „Með nýrri tækni á Dalvík höfum við getað lagað okkur hratt að breytingum á markaði og þjónustað viðskiptavinir með þær vörur sem þeir hafa óskað eftir á þeim tíma sem þeim hentar best,“ segir á vefsíðu Samherja. /MÞÞ