Franz Árnason fyrrverandi forstjóri Norðurorku sagði í viðtali við Vikudag á dögunum að flutningsmöguleikarnir í raforkukerfinu til Akureyrar væru fullnýttir og að nauðsynlegt sé að bæta þar úr. Franz sagði að efla þyrfti aðflutningslínur Landsnets til Eyjafjarðar og að það sé á döfinni. Hins vegar hafi orðið alls kyns tafir á því, vegna þess að menn megi ekki sjá rafmagnslínur í dag. Franz sagði menn heimtuðu allar lagnir í jörð en að það sé óraunhæft og allt of dýrt.
Í Vikudegi í gær er grein eftir Víði Gíslason, þar sem hann kemur inn á þetta mál. Hann segir að háspennulínur yrðu ógn við flugöryggi í Eyjafirði. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu Landsnets, myndu áhrif þeirra verða til þess að Akureyrarflugvöllur stæðist ekki alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja. Því metnaðarfulla starfi sem unnið hefur verið undanfarið, við endurbætur og markaðssetningu flugvallarins, gæti verið stefnt í voða. Einnig verður að geta þess, að núverandi háspennulínur við suðurenda flugbrautar, setja vissar takmarkanir á aðflug og gera það að verkum að flugvöllurinn uppfyllir ekki áðurnefndar kröfur, segir Víðir í grein sinni.
Hann segir að komið hafi fram hugmynd um að leggja jarðstreng frá tengivirki við Kífsá og austur á Vaðlaheiði, u.þ.b. 10 km vegalengd. Leiðin er kjörlendi fyrir lagningu strengs, mjúkur jarðvegur með góða hitaleiðni sem er mikilvæg fyrir vellíðan jarðstrengja. Ummerki eftir strenglögn væru óveruleg að framkvæmdatíma loknum. Sjónræn áhrif háspennulínu væru hins vegar veruleg, segir Víðir.
Grein hans má finna hér á vefnum undir: Aðsendar greinar.