Líkur eru á að frumvarp innanríkisráðherra þar sem lagt er til að lögreglunám verði fært upp á háskólastig verði afgreitt frá Alþingi í dag. Háskólinn á Akureyri er einn þeirra fjögurra háskóla sem vilja kenna námið. Stefnt er að því að það hefjist strax í haust. Vísir sagði frá þessu.
Unnið hefur verið að því síðastliðin tvö ár að færa lögreglunám upp á háskólastig en það hefur verið kennt hjá Lögregluskóla ríkisins síðastliðna áratugi.
Almenn sátt hefur ríkt um málið á Alþingi en þó hefur verið deilt um hversu brátt ákvörðunin tekur gildi. Ekki er komið á hreint að svo stöddu hvaða háskóli mun kenna fagið. Auk Háskólans á Akureyri, hafa þrír háskólar sýnt því áhuga að kenna fagið. Það eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík. Víðir Reynisson, lögreglumaður hefur verið verkefnastjóri í undirbúningnum.
„Það var ákveðið að fara í vinnu með Ríkiskaupum og fá óháða matsnefnd til að mæla með einhverjum skóla,“ sagði Víðir í samtali við Vísi og bætir við að hann telji skólana tilbúna til að fara af stað með námið strax í haust. /epe.