Um er að ræða að tengiliðurinn (ECP, ESPON contact point) hafi yfir að ráða mikilli samfélagsmenntun og sé fær um að taka þátt í og stjórna samstarfsverkefnum tengiliða í öðrum löndum Evrópu. Þetta netverk ECP-tengiliða opnar ýmsa möguleika fyrir skólann sem og íslenskar byggðarannsóknir og er kostað af ESPON. Til grundvallar valinu lá að umsækjandi hefði yfir að ráða fjölda starfsfólks, menntun, reynslu af fjölþjóðlegu rannsóknastarfi og aðstöðu til að leiða aðgengileg tækifæri út úr fjölþjóðlegu samstarfi. Auk þess lágu til grundvallar stjórnunar-, fjárhags- og tæknilegar forsendur til að starfa við þau skilyrði sem sett eru af uppbyggingarsjóðum ESB og ESPON, m.a. kröfur um framvinduskýrslur og endurskoðun.
RHA - Rannsókna- og Þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri mun hafa umsjón með verkefninu, en ábyrgðarmaður þess af hálfu Háskólans á Akureyri er dr. Grétar Þór Eyþórsson prófessor við viðskipta- og raunvísindadeild og hug- og félagsvísindadeild. Í stýrihópi um verkefnið sitja auk Grétars þeir Hjalti Jóhannesson aðstoðarforstöðumaður RHA og dr. Þóroddur Bjarnason prófessor við hug- og félagsvísindadeild.