Háskólinn á Akureyri og SAk í samstarf

Frá undirritun samningsins. Mynd/ Unak.is
Frá undirritun samningsins. Mynd/ Unak.is

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) og Háskólinn á Akureyri (HA) hafa gert með sér samstarfssamning í þeim tilgangi að styrkja samstarf stofnananna. Samningurinn er endurnýjun á eldri samningi þessara aðila en meðal þess sem er nýtt er ákvæði um að stöðum hjá SAk geti fylgt akedemísk nafnbót hjá Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri (HHA) og að ráðning í starf geti verið sameiginleg. Þetta kemur fram á heimasíðu skólans.

Samstarfssamningurinn var undirritaður á ársfundi SAk í dag. Markmið hans er að efla samstarf um rannsóknir, símenntun og kennslu heilbrigðisstarfsmanna.

HHA sameiginlegur vettvangur

Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri (HHA) verður sameiginlegur vettvangur starfsmanna SAk og HA til að efla rannsóknir í heilbrigðisvísindum. HHA hefur einnig það hlutverk að bæta umhverfi fyrir rannsóknarnám (meistara- og doktorsnám) við heilbrigðisvísindasvið HA. 

Þeir starfsmenn SAk, sem gegna aðalstarfi á sjúkrahúsinu og sinna kennslu og rannsóknum, geta sótt um mat á hæfi til að hljóta akademíska nafnbót við HHA. Einnig er kveðið á um að að ákveðnum stöðum við SAk geti fylgt staða við HHA, sem fylgi að lágmarki 20% vinnuskylda við heilbrigðisvísindasvið HA. Til greina kemur að ráðning í stöður verði sameiginleg á grundvelli samningsins og einstakra verkefna.

Ótímabundinn samningur

Verkefni sem samningsaðilar vinna nú þegar að og ætla að auka samvinnu um er tilgreind í samningnum. Þau snúa m.a. að uppbyggingu sérfræðimenntunar innan heilbrigðisvísinda, samstarfi á sviði sí- og endurmenntunar, aukinni rannsóknasamvinnu og tölvu- og upplýsingatækni. 
Samningurinn er ótímabundinn en hvor samningsaðili um sig hefur heimild til þess að segja honum upp með sex mánaða fyrirvara eða óska eftir endurskoðun hans.

 

Nýjast