Þorsteinn Gunnrsson rektor segir í tölvupósti til starfsmanna HA að með þessari samþykkt hafi náðst mikilvægur áfangi til að ná niður uppsöfnuðum rekstrarhalla frá fyrri árum og að styrkja rekstrarstöðu háskólans í þeim efnahagslegu hremmingum sem samfélag okkar fæst við. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2009 sem Alþingi hefur afgreitt eru útgjöld háskólans á þessu ári skorin niður um 105,3 milljónir króna, eða 7,1%. "Ég ítreka þá afstöðu háskólaráðs sem kynnt hefur verið fyrir forsvarsmönnum í viðkomandi stéttarfélögum að unnið verði að þessum niðurskurði án þess að segja upp starfsfólki. Ég vona að góð samstaða náist hér innan háskólans um þessa afstöðu en samt sem áður er fyrirsjáanlegt að þessi niðurskurður mun leggjast þungt á starfsemi háskólans á næsta ári. Of snemmt er að segja til um til hvaða aðgerða verður gripið hér í Háskólanum á Akureyri en megináherslan verður lögð á að vernda störf og að námi nemenda verði ekki raskað."
Þorsteinn segir að framkvæmdastjórn vinni að tillögum um rekstraráætlun fyrir 2009 og gert sé ráð fyrir að þær verði lagðar fyrir háskólaráð um miðjan janúar nk.