#háskólaríhættu - Áskorun til stjórnvalda

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason
Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason

Sjö rektorar ísenskra háskóla hafa birt sameiginlega yfirlýsingu til frambjóðenda í Alþingiskosningum. Í yfirlýsingunni vara rektorar allra íslenskra háskóla við þeirri stefnumótun sem birtist í Fjármálaáætlun hins opinbera fyrir árin 2017–2021 enda séu háskólarnir þar skildir eftir.

Yfirlýsing frá rektorum háskóla á Íslandi

„Við undirrituð, rektorar allra háskóla á Íslandi, lýsum þungum áhyggjum af málefnum háskóla landsins. Fjármálaáætlun hins opinbera fyrir árin 2017–2021 gerir ráð fyrir heildarútgjaldaaukningu til uppbyggingar ýmissa innviða samfélagsins - en skilur háskólana eftir.

Úttektir Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sýna að íslenskir háskólar eru verulega undirfjármagnaðir og fá helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar annars staðar á Norðurlöndum.

Háskólar eru ómissandi fyrir þróun íslensks samfélags. Þeir búa ungt fólk undir þátttöku í atvinnulífi og samfélagi og gera því kleift að hafa frumkvæði og áhrif til farsældar fyrir þjóðfélagið allt. Við fullyrðum að áframhaldandi undirfjármögnun háskólastigsins mun hafa verulega neikvæð áhrif á háskólanám, rannsóknir, menningarstarf og nýsköpun og þar með samfélagsþróun og samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.

Við óbreytt ástand geta háskólarnir ekki starfað áfram með eðlilegum hætti. Háskólastarfi á landinu er stefnt í hættu.

Við skorum því á stjórnmálamenn, sem nú bjóða sig fram til Alþingis, að láta verkin tala. Fjárfesting í háskólum er fjárfesting í velsæld, atvinnutækifærum og í framtíðinni.“

Undir yfirlýsinguna rita:

  • Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri,
  • Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands,
  • Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík,
  • Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands,
  • Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst,
  • Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og
  • Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.

Ætla að safna 20.000 undirskriftum

Stúdentahreyfingar allra háskóla landsins hófu rafræna undirskriftasöfnun til að vekja athygli á verulegri undirfjármögnun sem stefni háskólum landsins í hættu. Undirskriftasöfnunin fer undir yfirskriftinni Háskólar í hættu og felur í sér áskorun til stjórnvalda um að forgangsraða í þágu menntamála og að framfylgja markmiðum um fjármögnun háskólakerfisins.

„Meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnema í háskóla er tæplega 1,3 milljónir króna. Ísland er þar langt á eftir nágrannaþjóðum sínum því framlagið nemur rúmlega 2,2 milljónum króna að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum,” segir meðal annars í áskoruninni sem hægt er að skrifa undir í gegnum síðuna haskolarnir.is.

Myndbönd

Háskólarnir hafa búið til myndbönd vegna áskorunarinnar #háskólaríhættu sem birtast á samfélagsmiðlum. Hér má sjá myndbönd Háskólans á Akureyri með skilaboðum frá rektor HA, kennurum, nemendum og góðvinum. 

Nýjast