Hart deilt um smáhýsi fyrir heimilislausa í Naustahverfi

Séð yfir Naustahverfi. Mynd/Hörður Geirsson.
Séð yfir Naustahverfi. Mynd/Hörður Geirsson.

Reisa á smáhýsi fyrir heimilislausa í Naustahverfi á Akureyri en því hefur verið harðlega mótmælt af íbúum hverfsins sem margir hverjir eru ekki sáttir við að fá óreglufólk inn í fjölskylduhverfi. Eins og Vikudagur greindi frá fyrr í vetur hefur færst í vöxt á Akureyri að einstaklingar séu utangarðs og/eða heimilislausir og jafnan 1-3 á götunni hverju sinni.

Þessir einstaklingar glíma við fjölþættan vanda, gjarnan langt gengna fíknisjúkdóma ásamt hegðunar og/eða geðröskunum af einhverju tagi. Guðrún Sigurðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Akureyrarbæjar, sagði í samtali við blaðið að vandi þessa hóps sé með þeim hætti að hann getur illa búið í nábýli við aðra, s.s. í venjulegum fjölbýlishúsum.

Upphaflega stóð til að reisa smáhýsi á Norðurtanga fyrir heimilislausa en sú staðsetning var einnig harðlega gagnrýnd, m.a. af stjórn Geðverndarfélags Akureyrar. Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að ekki sé hægt að setja húsnæðisúrræði eins og smáhýsi inn á þegar deiliskipulagt svæði sem er í fullri uppbyggingu, en á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í byrjun febrúar var lögð fram samþykkt skipulagsráðs um að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Nonnahaga og Margrétarhaga í Naustahverfi.

„Það er hinsvegar okkar mat að þjónustukjarni fyrir einstaklinga með fötlun eigi eftir að sóma sér vel á fyrirhuguðum stað enda eiginlegur hluti af hverfinu og fordæmi fyrir því víða í bænum. Síðustu daga hefur verið umræða á samfélagsmiðlum um breytingar á skipulagi Hagahverfis. Við hvetjum alla sem skoðun hafa á málinu að koma henni á framfæri við skipulagssvið Akureyrarbæjar áður en auglýsingarfrestur rennur út,“ segir í yfirlýsingu meirihlutans en athugasemdir er hægt að  senda á netfangið skipulagssvid@akureyri.is.

Nýjast