Harpa nýr formaður Myndlistarfélagsins

Harpa Örvarsdóttir var kjörin formaður Myndlistarfélagsins til næstu tveggja ára, á aðalfundi félagsins í vikunni. Með henni í stjórn eru Dagrún Matthíasdóttir, Lárus H List, Helgi Vilberg Hermannsson og Inga Björk Harðardóttir. Helgi og Inga voru kosin til tveggja ára. Varamenn í stjórn eru Joris Rademaker og Pálína Guðmundsdóttir.

Myndlistarfélagið var stofnað á Akureyri í lok janúar 2008 og voru stofnfélagar um 60 talsins. Hlynur Hallsson var kjörinn fyrsti formaður félagsins. Myndlistarfélagið sér um rekstur galleriBOX í Listagilinu. Markmið félagsins er að efla samtök myndlistarmanna og vera málsvari þeirra, bæta kjör og starfsgrundvöll myndlistarmanna, gæta hagsmuna þeirra,  efla umræðu um myndlist og auka þekkingu og fræðslu um myndlist, auka myndlist á Norðurlandi sérstaklega og koma á samstarfi við opinbera aðila á svæðinu. Einnig er markmið félagsins að standa fyrir sýningum á verkum félaga Myndlistarfélagsins og koma á samvinnu við listamenn, erlendis sem og hér á landi.

Nýjast