Haraldur Ingi er bæjarlistamaður Akureyrar

Frá vinstri: Unnar Jónsson formaður stjórnar Akureyrarstofu, Haraldur Ingi Haraldsson bæjarlistamaðu…
Frá vinstri: Unnar Jónsson formaður stjórnar Akureyrarstofu, Haraldur Ingi Haraldsson bæjarlistamaður, Anna Guðný Sigurgeirsdóttir eigandi brunnsins við Aðalstræti 50, Erlingur Sigurðarson heiðursviurkenningarhafi Menningarsjóðs, Gunnfríður Hreiðarsdóttir heiðursviðurkenningarhafi Menningarsjóðs, Guðmundur Sveinn Sveinsson og Valgerður Kristín Gunnarsdóttir eigendur Helgamagrastrætis 23, Haukur Viktorsson arkitekt og Byggingarlistarverðlaunahafi og Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu./akureyri.is

Í gær 21. apríl var til­kynnt á Vor­komu Ak­ur­eyr­ar­stofu um val á bæj­arlista­manni Ak­ur­eyr­ar 2016-2017 og varð myndlistarmaðurinn Haraldur Ingi Haraldsson þess heiðurs aðnjót­andi. Hann mun á starfslaunatímabilinu vinna að gerð þrívíddarsýningarsals á netinu og skönnunarvers af sama toga. Einnig stefnir hann að uppsetningu sýningar sem byggir á verkefni sem heitir „Cod head“ sem Haraldur Ingi hefur unnið að síðustu ár.

Við sama tæki­færi voru veitt­ar tvær viður­kenn­ing­ar úr Hús­vernd­ar­sjóði og ein Bygg­ingarlistar­verðlaun. Helgamagrastræti 23 fékk viðurkenningu Húsverndarsjóðs en húsið hefur verið lagfært af miklum metnaði og natni eigenda þess. Einnig fékk brunnur við Aðalstræti 50 viðurkenningu Húsverndarsjóðs en þetta er eini brunnurinn sem varðveist hefur af þeim 16 brunnum sem voru í Innbænum og Fjörunni á Akureyri svo vitað sé. Við þetta tilefni var smiðsins Hólmsteins Snædal minnst en hann lést í lok síðasta árs. Hólmsteinn átti stóran þátt í því að þessi einstaki brunnur var endurgerður og kom einnig að endurgerð fjölda annarra fallegra gamalla húsa á Akureyri. Bygg­ingarlista­verðlaun Ak­ur­eyr­ar hlaut Haukur Viktorsson arkitekt fyrir þann hluta ævistarfs hans sem snýr að Akureyri en hann teiknaði m.a. húsið við Hamragerði 31 sem þykir vera eitt af öndvegisverkum nútímabyggingarlistar á landinu. Af öðrum húsum sem hann teiknaði má nefna Þórunnarstræti 85, Aðalstræti 65 og Barðstún 7.

Heiður­sviður­kenn­ing Menn­ing­ar­sjóðs var veitt tveim­ur ein­stak­ling­um sem hafa með fram­lagi sínu stutt við og auðgað menn­ing­ar­líf bæj­ar­ins. Þetta eru Gunnfríður Hreiðarsdóttir sem hefur lagt mikið af mörkum til kórastarfs á Akureyri og Erlingur Sigurðarson frá Grænavatni sem starfaði um árabil hjá Skáldahúsunum á Akureyri og vakti mikla athygli á skáldskap bæjarskáldanna Matthíasar Jochumssonar og Davíðs Stefánssonar með námskeiðshaldi og annars konar viðburðum.

Nýjast