Hannes ráðinn forstöðumaður sjónlistamiðstöðvar á Akureyri

Hannes Sigurðsson. Mynd: Völundur Jónsson.
Hannes Sigurðsson. Mynd: Völundur Jónsson.

Hannes Sigurðsson, listfræðingur og forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, hefur verið ráðinn forstöðumaður nýrrar sjónlistamiðstöðvar í Listagilinu á Akureyri. Sjónlistamiðstöðin verður til með sameiningu Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili og Listasafnsins á Akureyri og er markmiðið að efla Listagilið sem miðstöð sjónlista. Hannes var valinn úr hópi 9 umsækjenda en hann mun taka til starfa um leið og hin nýja stofnun um næstu áramót.

Sjónlistamiðstöðin mun reka Listasafnið á Akureyri, fjölnotahúsin Ketilhúsið og Deigluna og auk þess að hafa umsjón með vinnustofum listamanna. Sérstök áhersla verður lögð á fræðslustarf fyrir börn og samstarf við félög og grasrótarhópa. Þannig verður lögð enn meiri áhersla að auka sérstöðu Listagilsins sem miðju sjónlista með líkum hætti og Menningarhúsið Hof er miðstöð sviðslista. Hannes lauk stúdentsprófi frá MH 1979, stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan burtfararprófi Í flautuleik 1984, stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1980 og lauk þaðan prófum 1984, lauk BA-prófi í myndlist 20. aldar frá listfræðideild University College London 1988, og MA-prófi frá listfræðideild Kaliforníuháskóla íBerkeley1990. Að námi loknu stundaði Hannes sýningarstjórnun fyrir Mokka-kaffi og skriftir um myndlist í New York 1990-95. Eftir heimkomuna starfrækti hann eigin sýningarsal, Sjónarhól, og var menningarfulltrúi og sýningarstjóri Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs 1995-97, en þar stofnaði hann til Sjónþinga Gerðubergs. Í árslok 1997 kom hann á fót Íslensku menningarsamsteypunni Art.is, sem hann hefur rekið síðan. Hannes varð forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri í júlí 1999 og hefur gengt því starfi fyrst sem starfsmaður Akureyrarbæjar og einnig eftir að Art.is tók að sér rekstur safnsins með sérstökum samningi. Hannes sat í úthlutunarnefnd starfslauna úr Launasjóði myndlistarmanna 1996 og hefur átt sæti í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík síðan 1994. Hann var útnefndur til DV verðlauna 1997, 1998 og 2001. Hannes hefur staðið að vel yfir 200 myndlistarsýningum og margvíslegum verkefnum, mörgum mjög viðamiklum, og gefið út fjölmargar bækur, sumar á eigin vegum en einnig hefur hann stýrt bókaútgáfu Listasafnsins á Akureyri. Má þar nefna Eitt sinn skal hver deyja (1996), Flögð og fögur skinn (1998), Lífæðar (1999), Heimur kvikmyndanna (1999) og Hláturgas (2000). Hannes var upphafsmaður að Íslensku Sjónlistaverðlaunum sem sett voru á fót árið 2006.

Nýjast