Handverkshátíð við Hrafnagilsskóla verður sett í dag í 17. sinn við hátíðlega athöfn. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, mun setja hátíðina formlega. Margt verður að gerast í tengslum við hátíðina en yfir 100 einstaklingar og félög taka þátt. Hönnunarsamkeppnin Þráður fortíðar til framtíðar sem haldin var í tengslum við hátíðina mun setja svip og fer verðlaunaafhending fram á laugardaginn kl. 15:00 þar sem þeim verður hampað sem fremstir fóru í flokki við gerð muna en nær 400 munir fóru fyrir dómnefnd.
Mikil gróska er í handverki og hönnun á Íslandi í dag og ljóst er að nýsköpun er alls ráðandi í þjóðfélaginu. Nýting á óvenjulegu hráefni eins og hænsalappaskinni, horni og beini hefur færst í aukana og skemmtilegir munir verða til sýnis og sölu.
Verksvæði handverksmanna verður fjölbreytt sem fyrr. Laufáshópur mun kynna matargerð af fornum sið, glerlistarmaður verður að störfum, tískusýningar, rúningur, krambúð, forndráttarvélasýning, andlitsmálun fyrir börn og fleira. Hátíðin stendur yfir frá föstudegi til mánudags og er opið frá klukkan 12 til 19 alla daga.